144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að taka fyrir í þessari stuttu ræðu minni. Þau varða fréttaflutning sem birst hefur vegna haftamála.

„Losun hafta ætti ekki að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar“ er fyrirsögn á frétt sem birtist í fréttum í gær. Í fréttinni segja þeir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að það eigi að vera hægt að losa um höftin án þess að það hafi áhrif á gengi krónunnar. Þeir telja að sú áætlun sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar kynnti á dögunum muni styrkja nýgerða kjarasamninga og viðhalda stöðugleika. Hér sýnir það sig vel að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um afnám hafta er heildstæð lausn sem byggist upp á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði. Hér eru öllu dekri við kröfuhafana hætt og loksins eru hagsmunir almennings settir í forgang.

Einnig langar mig að vitna í orð Sigurðar Hannessonar, en hann segir í frétt sem birtist í morgun að sú fullyrðing stjórnarandstöðunnar að aðgerðaáætlun um afnám hafta byggi á áætlun sem gerð var 2011 sé bara alls ekki rétt. Málið er að afnámsáætlun síðustu ríkisstjórnar tók ekki til slitabúa, annaðhvort gleymdu þeir kröfuhöfunum eða fannst að það mætti nota skuldsettan gjaldeyrisforða til að borga þá út, eins og sumir þeirra lögðu til. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tekur á 1.200 milljarða vandamáli, þar af eru slitabúin 900 milljarðar. Heildarlausnin liggur því í að tekið sé á slitabúunum.

Auðvitað má ríkisstjórnin og þeir sem unnið hafa að núverandi áætlun um afnám hafta vera ánægð með að fleiri vilji eigna sér verkið. Það sýnir bara að hér er um gott verk að ræða. Það er eitthvað sem við getum öll glaðst yfir.