144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að nota þennan dagskrárlið í dag sem heitir Störf þingsins einmitt til þess að ræða um störf þingsins. Nú eru tólf dagar síðan þingi átti að vera lokið samkvæmt starfsáætlun. Það eru tólf dagar síðan það verkplan sem hér var sett upp átti að vera búið og átti að vera búið að samþykkja öll þau mál og afgreiða sem átti að taka fyrir á þessu þingi. Það bólar ekkert á nýrri starfsáætlun og því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekkert gefið út um hvaða mál hún leggi áherslu á að klára á 144. löggjafarþingi. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að ekki er raunhæft að klára á þessum dögum sumarsins öll þau 74 mál sem hafa verið sett fram á þeim lista sem kynntur hefur verið fyrir formönnum stjórnmálaflokkanna sem og þingflokksformönnum. Þetta er afleit staða fyrir okkur sem hér vinnum að vita ekkert hversu langt fram á sumarið við eigum að vinna eða hreinlega hvaða hugmyndir eru um það hvað við eigum að vera að gera í vinnunni. Þetta er orðið sérstaklega bagalegt í nefndum þar sem þingmenn hafa ekki hugmynd um hvaða mál þeir eigi að setja í forgang, hvernig þeir eigi að forgangsraða vinnu sinni. Nú er sú staða meira að segja komin upp í hv. velferðarnefnd að þar sem við erum þó að reyna að leggja áherslu á það sem við giskum á að sé hæstv. ríkisstjórn mikill akkur í að við samþykkjum, þá fáum við ekki einu sinni svör frá ráðuneytinu (Forseti hringir.) við spurningum okkar. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem engum eru bjóðandi.