144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:44]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir góð tíðindi og samstöðu í þinginu um stöðugleikaskatt eru ýmsar blikur á lofti í samfélaginu. Lægsta hitastig í hafinu suður af landinu í 18 ár er staðreynd og blikur á lofti hvort makríllinn láti sjá sig í sumar á Íslandsmiðum. Þjóðin gæti orðið af 20 milljörðum í útflutningstekjum. Við þann veruleika stendur nú útgerðin og vinnslan uppi með milljarða, jafnvel tugmilljarða skuldir vegna fjárfestinga til veiða og vinnslu á makríl, sem er gríðarlega alvarlegt mál. Það eru fleiri váleg tíðindi af veiðum og vinnslu. Humarvertíðin fer mjög illa af stað. Það er aðeins búið að veiða núna á fyrstu vikum humarvertíðar tæplega 10% af því sem veiddist á sama tíma í fyrra. Það er reyndar ekki nýtt að veiðar á humri geti verið mismunandi en þetta slær öll fyrri met. Það þarf að skoða humarbreiðurnar og athuga hvort það þurfi ekki að vernda þær meira en gert er.

Það eru líka á næstu dögum úrslitadagar í því hvort stóriðjan Silicor á Grundartanga verði að veruleika. Þar eru 500 störf í húfi. Þar eru útflutningsverðmæti tvöföld á við verðmæti makríls og það er gríðarlega mikilvægt, virðulegi forseti, að Alþingi geri það mögulegt að sú verksmiðja verði reist. Það sama er að segja um framlengingu á raforkusamningum við fyrirtæki á Grundartanga. Þau eru í kyrrstöðu og mikilvægt að þau mál leysist á næstu dögum.