144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Húsvíkingar og nærsveitarmenn fagna því núna að framkvæmdir eru mögulega að hefjast á Bakka við stóriðjuverkefni sem var keyrt í gegnum síðasta þing með samþykki okkar í þáverandi minni hluta en í boði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, ríkisstjórnarflokkanna sem þá voru. (ÖS: Stolt af því.) En böggull fylgir skammrifi, nú hefur atvinnuveganefnd verið beðin um, í sambandi við þetta verkefni sem hefur fengið mestar ívilnanir allra stóriðjuverkefna á landinu hingað til, að flytja breytingartillögu þar sem áætlun var vanáætluð um sem nemur 1.300 millj. kr. og atvinnuveganefnd þarf að leggja fram breytingartillögu við þetta mál upp á 1.300 millj. kr. aukafjárveitingu. Þetta má segja að sé opinn stóriðjutékki af hálfu vinstri flokkanna í þessu stóriðjuverkefni.

Það er ákveðinn tvískinnungsháttur í allri þessari umræðu. Þetta verkefni var stutt hér af þeim vinstri flokkum sem í dag eru að berjast fyrir því að leggja stein í götu virkjana í neðri hluta Þjórsár og stein í götu eðlilegrar afgreiðslu á rammaáætlun með þeim afleiðingum sem það getur haft í för með sér. Afleiðingarnar eru alvarlegar fyrir samfélagið, ekki á Húsavík reyndar í þessu tilfelli vegna þess að þar er Þeistareykjavirkjun komin í uppbyggingu, jarðvarmavirkjanir eru að fara í gang með blessun vinstri flokkanna og fulltrúar þessara flokka gera sér vonir um að þar verði hægt að vinna 400–500 megavött og byggja upp frekari stóriðju á Húsavík. Á sama tíma leggja þeir stein í götu uppbyggingar í Helguvík og á Grundartanga. Þar eru, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni áðan, mikil verðmæti í húfi. Verksmiðjan Silicor uppi á Grundartanga mun verða með um tvöfalt verðmæti makríls í útflutningsverðmæti, nánast verðmæti þorsks í útflutningi, 55 milljarða á ári, fyrir utan öll þau störf sem skapast. Hið sama á við um verkefnin í Helguvík; þau skipta gríðarlega miklu máli. (Forseti hringir.) Það er alveg ljóst að ef rammaáætlun fer ekki í gegn með þeim hætti sem meiri hluti atvinnuveganefndar hefur lagt (Forseti hringir.) til þá eru þessi verkefni í uppnámi og alveg ljóst að það getur ekki orðið af þeim öllum. (Gripið fram í.)