144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson ætlar seint að skilja út á hvað rammalöggjöfin gengur um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. Það gengur illa að ná þeim skilningi en það verður bara svo að vera.

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú, þegar svona mikill þrýstingur er að fara fram hjá þeirri rammalöggjöf sem við samþykktum öll hér á Alþingi vegna pressu á einstök fyrirtæki, kísilver og ýmsa aðra stóriðju, orkufrekan iðnað, að við stöndum vörð um þetta faglega ferli sem við samþykktum öll hér.

Hér var Bakki nefndur og Þeistareykir sem skaffa orkuna í kísilverið á Bakka. Þeistareykir fóru í gegnum faglegt ferli rammaáætlunar og voru settir í nýtingarflokk, þannig er það nú bara. Við höfum líka heildarlöggjöf, eða það liggur fyrir þinginu núna, hvað varðar ívilnanir í nýfjárfestingu fyrirtækja og að fyrirtæki fari inn undir þann ramma í ráðuneytum að ekki sé verið að taka eitt og eitt fyrirtæki hingað inn á þing með fjárfestingarsamning eins og verið hefur undanfarið hér á þingi. Það er svo mikilvægt að við virðum þessi ferli, hvort sem það er rammalöggjöfin eða ívilnanalöggjöfin sem verður vonandi samþykkt hér á þingi á næstu dögum. Við megum ekki láta undan pressu einstakra aðila í þessum efnum, það er ekki boðlegt. Náttúran er auðvitað svo mikils virði að það verður að standa vörð um hana, hún hefur ekki aðra talsmenn en þá sem vilja virða svona fagleg ferli sem við sameinuðumst um með því að samþykkja rammaáætlun á sínum tíma. Ég skil ekki þessi viðhorf, stórkarlalegu viðhorf, vil ég segja, að halda alltaf að (Forseti hringir.) þeir geti gert eitthvað með handafli, stungið í samband við neðri hluta Þjórsár einhverjum orkuverum sem þeim þóknast. (Forseti hringir.) Menn verða að sýna þolinmæði og bíða eftir því hvað kemur út úr nýtingarflokki, hæstv. forseti.