144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér gerðust stórtíðindi í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Við höfum hér átt dögum og vikum saman í harðvítugri deilu innan þingsins um það hvernig eigi að fara með breytingartillögu hans varðandi rammaáætlun. Hv. þingmaður lýsti því yfir úr ræðustól Alþingis að hann gæti vel hugsað sér að þeir kostir sem þar eru komi ekki fyrr en með seinni skipunum þegar verkefnisstjórnin skilar af sér og hlutirnir koma þá aftur hér til þings. Ég held að hæstv. forseti ætti að taka þessu boði hv. þingmanns tveimur höndum og vinna á þeim grundvelli að því að finna laun á þeim málum sem hér hafa verið hvað mest deiluefni. Ég vil bara þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir framhald á hans einlæga sáttahug til manna hér í þinginu.

Ég vil síðan segja það sem fyrrverandi ráðherra í fyrri ríkisstjórn að ég er stoltur af aðkomu þeirrar ríkisstjórnar að Bakka, en hv. þm. Jón Gunnarsson verður að gera hreint fyrir sínum dyrum. Hefur hann nú (Forseti hringir.) snúist gegn Bakka? Ætlar hann að standa gegn uppbyggingunni á Bakka?