144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og mér finnst afar mikilvægt að hér er tillaga með breytingartillögu varðandi rammaáætlun tekin af dagskrá þingsins fyrir þremur vikum síðan að mig minnir og menn ætluðu þá að freista þess að ná einhverri niðurstöðu í þá umræðu og halda þingstörfum áfram að öðru leyti. Svo gerist það hér að formaður atvinnuveganefndar og sá sem hefur farið fremst í flokki í því máli leggur það til að tillagan sé dregin til baka (Gripið fram í: Já.) eins og hún leggur sig, (Gripið fram í: Já.) þ.e. bæði Hvammsvirkjun sem er tillaga ráðherrans og breytingartillögurnar að auki. Það er svo sem í anda þess sem hér hefur verið rætt og varpað fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, þ.e. að öll ágreiningsmál séu lögð til hliðar í ljósi þess að hér erum við að ræða mjög mikilvæg mál sem varða losun hafta og við einhendum okkur í að fara í mál sem er samkomulag um og þar sem eru stífir tímafrestir. Önnur mál séu lögð til hliðar, enda er starfsáætlun þingsins (Forseti hringir.) löngu liðin. Ég vil fagna því að hv. þm. Jón Gunnarsson leggur fram þessa hugmynd og bið virðulegan forseta að leggja við hlustir.