144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er einmitt almenn kurteisi, undir þessum lið um störf þingsins, að ef menn ætla að ræða við aðra þingmenn, bera á þá einhvers konar sakir eða slíkt, geri þeir þeim viðvart og eigi þá orðastað við þá um það þannig að báðir geti komist að og komið svari sínu að undir þessum lið, og hafa til þess tvær mínútur, í stað þess að þurfa að bera af sér sakir eftir á í mínúturæðutíma. Ég lenti í því sjálfur með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni. Ég talaði við þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins og spurði hvort þetta væri stefna flokksins, að menn væru hættir að bjóða öðrum þingmönnum upp á að geta svarað fyrir sig ef þeir ætluðu að eiga orðastað við aðra þingmenn eða bera á þá einhvers konar sakir. Hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sagði: Nei, það er eðlilegt að leyfa mönnum að gera slíkt og það er ekki stefna flokksins að menn geri það ekki og bara almenn kurteisi, að sjálfsögðu. Þetta kemur fram í því sem okkur hefur verið kennt hérna um góða háttsemi (Forseti hringir.) og góða reglu og forseti þingsins ætti kannski að brýna það fyrir þingmönnum.