144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þar kom að því að okkur væri boðið upp á eitthvert samtal um það með hvaða hætti hægt væri að ljúka þingstörfum. Það er þá undir liðnum fundarstjórn forseta og af hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem virðist stýra öllu hér.

Ég ætlaði ekki að ræða fundarstjórn forseta heldur fara að ræða losun hafta. En mér blöskraði tal hv. þm. Jóns Gunnarssonar, hann talaði eins og það væri bara hið einfaldasta mál að skutla öllu inn á haustið, þar með talið Hvammsvirkjun sem hann er nú þegar búinn að tefja um hálft ár í þinginu. Það hefði verið hægt að ljúka því máli í desember. Nú ætlar hann að henda því enn lengra inn í framtíðina.

Hver er að tefja orkuframkvæmdir í landinu, virðulegi forseti? Það er hv. þm. Jón Gunnarsson og þessi stjórnarmeirihluti.

Í öðru lagi vil ég líka nefna að það kemur ekki til greina af hálfu Samfylkingarinnar að Bakki verði hér einhver verslunarvara. Það var góð samstaða um það mál á síðasta þingi og ég taldi að við ætluðum að ljúka því. Ég fagnaði óskaplega fyrir nokkrum dögum (Forseti hringir.) þegar öllum fyrirvörum var aflétt. Menn eru að fara að hefja þar framkvæmdir en þá kemur hv. Jón Gunnarsson og fagnar því með því að fara að tala um að það sé eitthvað hægt að fara að versla með það. Það kemur ekki til greina.