144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér er nú spuninn kominn á mikið flug hjá hv. þingmönnum minnihlutaflokkanna, sem er svo sem ósköp venjulegt í málflutningi þeirra. Hvenær setti ég Bakka fram sem verslunarvöru í ræðu minni? (ÖS: Áðan.) [Kliður í þingsal.] Ég var bara að benda á tvískinnungshátt í málflutningi þeirra. Studdum við ekki Bakka? Sagðist ég ekki styðja Bakka? Að sjálfsögðu styð ég Bakka, en ég mun fylgjast spenntur með atkvæðum þingmanna Vinstri grænna, Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar þegar kemur að því að samþykkja þessa breytingu. Ég mun sitja spenntur og fylgjast með atkvæðagreiðslu þeirra. (ÖS: Sérð það í haust.)

Hér var líka tekið úr samhengi það sem ég nefndi áðan um það að við gætum mögulega rætt það að taka þetta varðandi rammaáætlun til baka, en það væri þá til þess að fylgja forminu, sem er að mínu viti verið að uppfylla að öllu leyti, en menn eru ekki sammála um það. Það væri þá til þess að ráðherrann gerði breytingartillögur í sumar og kæmi inn með fleiri virkjunarkosti í haust vegna þess að ef málið klárast ekki á þessu þingi (Forseti hringir.) sitjum við auðvitað uppi með að eiga eftir að klára niðurstöðuna úr þessari vinnu verkefnisstjórnar. (Forseti hringir.) Þá blasir við að ráðherrar meirihlutaflokkanna, sem nú eru við völd og hafa allir staðið á bak við (Forseti hringir.) breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar, munu væntanlega bregðast við og koma (Forseti hringir.) með breytingartillögur sem eru í samræmi við það. [Háreysti í þingsal.]