144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson kemur hér upp í annað sinn og staðfestir það sem við sögðum áðan, þ.e. að hann er tilbúinn að fresta eitthvað inn í haustið ákvarðanatöku um Hvammsvirkjun sem er sú þingsályktunartillaga sem lögð var fram af hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra.

Við höfum talað fyrir því að um hana verði greidd atkvæði, en hv. þm. Jón Gunnarsson ætlar að tefja það að ákvarðanir sem teknar hafa verið af verkefnisstjórninni verði þá að veruleika í gegnum þingið, allt til þess að hann nái sínu fram um virkjunarkosti sem verkefnisstjórnin hefur ekki samþykkt. (JónG: Þeir eru …) Hvað gerir hann líka? Hann kemur hingað og segir: Ég styð Bakka, en best að búa til dálítið hressilegan ófrið í kringum það verkefni allt saman svo það sé erfiðara fyrir okkur að koma því í gegnum þingið og menn geti farið að „víla og díla“ með það á lokametrunum.

Það er það sem hv. þm. Jón Gunnarsson er að gera. (Forseti hringir.) Það er engum greiði gerður með þessu, allra síst Þingeyingum og Húsvíkingum sem hafa beðið eftir þessu mikilvæga uppbyggingarverkefni árum saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)