144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[13:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú mæli ég fyrir tveimur lagafrumvörpum, frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Bæði eru þessi frumvörp mikilvægir liðir í þeirri heildstæðu áætlun um losun fjármagnshafta sem kynnt var opinberlega á mánudaginn. Verði þessi frumvörp að lögum mun það liðka fyrir gerð nauðasamninga hjá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja en jafnframt mun það þýða að þeim slitabúum fallinna viðskiptabanka eða sparisjóða sem ekki hafa fengið staðfestan nauðasamning fyrir næstu áramót verður gert að greiða stöðugleikaskatt.

Til viðbótar við þessi lagafrumvörp hefur Seðlabankinn birt tilkynningu vegna aðgerða til losunar fjármagnshafta sem byggir á samþykkt stýrinefndar um losun hafta á grundvelli stöðugleikaskilyrða eða ramma um valfrjálsar ráðstafanir sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja geta gripið til í því skyni að ljúka nauðasamningum og í framhaldinu útgreiðslu eigna til kröfuhafa án neikvæðra afleiðinga fyrir stöðugleikann.

Í tilkynningu Seðlabankans segir að við veitingu undanþágu til uppgjörs fallinna fjármálafyrirtækja muni Seðlabanki Íslands líta til þeirra markmiða um stöðugleika sem stöðugleikaskatturinn byggir á. Í því sambandi mun Seðlabankinn taka mið af mögulegum lausnum vandans sem fram hafa komið í upplýsingaskiptum framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og fulltrúa kröfuhafa og slitastjórna um að gerðar verði ráðstafanir sem draga nægjanlega úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum, að öðrum innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldeyri verði breytt í langtímafjármögnun að því marki sem þörf krefur og að tryggt verði, í þeim tilvikum sem það á við, að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda í erlendum gjaldeyri sem veitt var nýju bönkunum í kjölfar hruns á fjármálamarkaði verði endurgreidd.

Síðar á árinu mun annar áfangi áætlunarinnar eiga sér stað þegar haldin verða útboð sem leysa munu þann vanda sem svokallaðar aflandskrónur skapa. Samhliða verður unnið að því að auka frelsi einstaklinga til fjármagnshreyfinga, sem og fjárfestingarheimildir fyrirtækja og lífeyrissjóða. Með auknum styrk hagkerfisins verða fjármagnshöft losuð að fullu.

Þá stendur yfir umbreyting á umgjörð efnahagsmála sem draga mun úr mögulegum neikvæðum áhrifum sem aðgerðir innlendra aðila geta haft. Seðlabankinn hefur til að mynda tekið í auknum mæli mið af gjaldmiðlaáhættu í reglum sínum og fjármálastöðugleikaráð hefur tekið til starfa og bætir yfirsýn stjórnvalda yfir áhættu sem finna má í hagkerfinu. Hagstjórnarlegt hlutverk opinberra fjármála styrkist til muna með lögfestingu frumvarps um opinber fjármál, auk þess sem fyrir Alþingi liggja frumvörp sem veita stjórnvöldum ný tæki til heildarstjórnunar fjármálakerfisins, svokölluð þjóðhagsvarúðartæki, bæði í frumvarpi til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu og frumvarpi til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki.

Má ljóst vera að umgjörð peningamálastefnunnar og ríkisfjármálanna verður eftir afnám fjármagnshafta langtum traustari en var fyrir bankahrunið og hagstjórn til lengri tíma litið verður um leið skilvirkari og árangursríkari til að bregðast við kerfisáhættum og/eða sveiflum í hagkerfinu.

Afnámsáætlunin sem kynnt var á mánudag byggist á starfi ráðgjafahóps sem skipaður var á haustmánuðum 2013 til að gera tillögur um einstaka skref og áætlun um losun hafta og á starfi framkvæmdahóps um afnám fjármagnshafta sem tók til starfa ári síðar, sumarið 2014, en samhliða skipan framkvæmdahópsins voru ráðnir erlendir ráðgjafar til að vinna með stjórnvöldum að afnáminu. Sneri vinna framkvæmdahópsins og erlendu ráðgjafanna að því að móta heildstæða lausn sem tæki á öllum þáttum fjármagnshaftanna. Laut hún að lagalegum og efnahagslegum þáttum og þá sérstaklega þjóðhagslegum skilyrðum við losun hafta. Á grundvelli þeirrar vinnu skilaði framkvæmdahópurinn tillögum til stýrinefndar um afnám hafta í desember síðastliðnum.

Í tillögum framkvæmdahópsins var lögð áhersla á, í samræmi við stefnu stjórnvalda, að undirbúa aðgerðir til þess að draga úr þeirri hættu sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð gætu skapað og móta umgjörð efnahagsmála og stöðugleika sem draga mundi úr vilja innlendra aðila til þess að leita með fjármagn úr landi.

Fyrri hluti þessarar vinnu, frá árinu 2013, sneri að verulegu leyti að því að reyna að nálgast sannleikann um það hvert umfang þessa vanda var og er í raun. Það er ekki einfalt verkefni, að því þurftu margir að koma. Það þurfti að styðjast við útreikninga frá Seðlabankanum á vinnu sem hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma en líka að uppfæra hana og skoða frá ýmsum sjónarhornum hver hinn raunverulegi þrýstingur á gjaldmiðil okkar gat orðið ef slitabúin færu að dreifa eignum sínum til kröfuhafa. En það eitt og sér var ekki nóg vegna þess að við þurftum líka að hafa skýra sýn á það hversu stór aflandskrónuvandinn var og hversu mikinn þrýsting þær krónur mundu setja á gjaldmiðilinn og því viðbótar hver innanlandsþrýstingurinn var. Þetta allt samantekið lýsir vandanum sem við var að etja. Þegar við höfðum nokkurn veginn náð utan um umfang vandans, og það gerist í sjálfu sér ekki fyrr en á árinu 2014, var hægt að hefjast handa við að þróa lausnir til þess að takast á við það vandamál. Síðari hluti vinnunnar, sú vinna sem framkvæmdahópurinn hefur sérstaklega einbeitt sér að, hefur snúist um útfærslur.

Allt starf og tillögur sem unnar hafa verið til lausnar vandanum byggjast á grundvallarsjónarmiðum stjórnvalda um að lausnin verði að virða lög, hún verði að virða alþjóðlegar skuldbindingar og tryggja jafnræði. Við settum okkur það grundvallarmarkmið að velja aðgerðir sem tækju skemmri tíma en aðrar, við mundum forgangsraða einfaldari lausnum fram yfir flóknari, við vildum lágmarka lagalega áhættu með þeirri lausn sem yrði ofan á og við vildum nálgast vandann heildstætt, ekki reyna að leysa einstaka hluta vandans án þess að hafa heildaryfirsýn.

Það var jafnframt grundvallarmarkmið okkar að lausnin skyldi stuðla að því að gengi krónunnar endurspeglaði raunhagkerfið eftir losun hafta og síðast en ekki síst skyldi haftaafnámsferlið hafa hagsmuni heimila og atvinnulífs á Íslandi í öndvegi, enda er það forsenda aðgerðanna að raunhagkerfið taki ekki út frekari aðlögun en þegar er orðin. Þetta hefur oft verið fært í tal hér á þinginu í umræðu um þessi mál áður.

Ein leið til að koma orðum að þessu væri að segja að við ætluðum aldrei að nota lán sem notuð hafa verið til að stækka gjaldeyrisforðann í þeim tilgangi að tryggja kröfuhöfum útgöngu eftir afnám haftanna. Það stóð aldrei til að verja gjaldeyrisforða sem að verulegu leyti hefur verið tekinn að láni til þess að leysa vandann.

Til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt eru tvær leiðir færar fyrir slitabúin, en áfangastaðurinn hefur ávallt verið ljós. Honum er lýst með þeim markmiðum sem ég hef nefnt hér áður, að það verði ekki þrýstingur á gengi krónunnar við losun haftanna vegna slitabúanna. Það eru fleiri leiðir færar en ein. Við erum að teikna þær upp hér í þessum frumvörpum. Við höfum átt fundi, eins og fram hefur komið, með lykilkröfuhöfum slitabúanna. Þar hefur verið hlustað eftir því hvernig menn séu tilbúnir að koma sér á þennan áfangastað og í þeirri vinnu hafa hin svokölluðu stöðugleikaskilyrði verið fínslípuð. En við höfum aldrei verið til samninga eða samtals um það hver áfangastaðurinn væri. Það hefur aldrei verið boðið upp á viðræður um það, við höfum aldrei verið til samninga um þjóðarhagsmuni.

Ég ætla fyrst að gera grein fyrir frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt. Í því er lagt til að lögfestur verði einskiptisskattur, stöðugleikaskattur, í því markmiði að skapa forsendur fyrir losun þeirra fjármagnshafta sem komið var á hér á landi í kjölfarið á hruni fjármálakerfisins árið 2008. Sú nálgun á málið sem lögð er til í frumvarpinu er gerð með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi.

Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er ákvæði sem fjallar um ráðstöfun þeirra fjármuna sem falla munu til vegna skattlagningarinnar. Þar segir að skatttekjurnar skuli renna í ríkissjóð og að ráðstöfun þeirra skuli samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Jafnframt er lagt til að gera skuli grein fyrir meðferð og ráðstöfun þessara fjármuna í frumvarpi til fjárlaga og að fjármála- og efnahagsráðherra skuli hafa samráð við Seðlabanka Íslands um áhrif þessa á bæði efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.

Gert er ráð fyrir að megineinkenni stöðugleikaskattsins og framkvæmdar hans séu sem hér segir: Skattskyld verða þau fjármálafyrirtæki sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir en sæta nú slitameðferð samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða hafa lokið henni vegna þess að héraðsdómur hefur úrskurðað að þau skuli tekin til gjaldþrotaskipta. Skattstofn er heildareignir skattskylds aðila eins og þær standa þann 31. desember 2015. Eignir skulu almennt metnar á gangvirði eða kostnaðarverði eins og það birtist í reikningsskilum skattskyldra aðila miðað við 31. desember 2015.

Skatthlutfall stöðugleikaskatts er 39% en frá reiknuðum skatti er heimilt að draga fyrir fram skilgreindar fjárfestingar skattskyldra aðila í skuldabréfum eða víkjandi lánum í erlendri mynt. Stöðugleikaskatturinn verður einskiptisskattur sem lagður verður á þann 15. apríl 2016. Gjalddagar hans verða fjórir: 1. maí, 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst 2016. Eindagar skattsins verða síðustu virku dagar hvers þessara mánaða en í því felst að álagður stöðugleikaskattur á að vera að fullu greiddur þann 31. ágúst 2016.

Í frumvarpinu eru lögð til tvö frávik frá því sem almennt gildir um úrlausn ágreiningsmála um skattlagningu. Bæði hafa þau þann tilgang að hraða úrlausn ágreiningsmála. Í fyrsta lagi er lagt til að úrskurður ríkisskattstjóra um kæru vegna álagningar skattsins verði fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Í því felst að ágreiningur um álagningu skattsins verður ekki borinn undir yfirskattanefnd. Í öðru lagi er lagt til að ágreiningsmál vegna skattsins skuli sæta flýtimeðferð fyrir dómstólum. Þá er lagt til að skattkrafa á grundvelli laga um stöðugleikaskatt skuli njóta rétthæðar sem búskrafa.

Í frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt eru einnig lagðar til fjórar breytingar á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, sem eru tvíþættar að efni til. Annars vegar er lagt til að heimildir Seðlabanka Íslands til að veita stöðugleikaskattsskyldum aðilum undanþágu frá fjármagnshöftunum verði tilgreindar í 13. gr. n laganna og hins vegar er lagt til að valdheimildir Seðlabankans til þess að bregðast við brotum á reglum um fjármagnshöftin verði styrktar. Mun ég nú lýsa þessum tveimur tillögum nánar.

Hvað varðar heimildir Seðlabankans til að veita undanþágur er lagt til að tveimur nýjum málsgreinum verði bætt við 13. gr. n laganna. Um er að ræða tvær heimildir til Seðlabanka Íslands til að veita stöðugleikaskattsskyldum aðilum undanþágu frá þeim takmörkunum sem gilda samkvæmt lögum um gjaldeyrismál. Í fyrsta lagi er lagt til að Seðlabanka Íslands verði heimilt að veita skattskyldum aðila undanþágu hafi hann staðið full skil á álögðum skatti. Jafnframt er kveðið á um það að Seðlabankanum sé aðeins heimilt að veita staðfestingu um undanþágu að liðnum frestum til kærumeðferðar eða málshöfðunar vegna skattsins án þess að ágreiningur hafi verið hafður uppi eða að endanleg niðurstaða dómstóla liggi fyrir sem staðfestir framkvæmd hans.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að höfði menn mál fá menn enga undanþágu. Þetta þýðir líka í reynd að höfði menn mál og vinni það eru menn enn þá háðir fjármagnshöftunum eins og þau eru í dag.

Í öðru lagi er lagt til að stöðugleikaskattsskyldir aðilar skuli undanþegnir ákvæði 13. gr. e í lögum um gjaldeyrismál vegna þeirra fjárfestinga sem veita rétt til frádráttar frá stöðugleikaskatti.

Eins og fyrr greinir er lagt til að Seðlabankanum verði veittar auknar valdheimildir til þess að bregðast við brotum á reglum um fjármagnshöft. Í fyrsta er lagt til að heimildir Seðlabankans til álagningar sekta á lögaðila vegna brota á 13. gr. b og 13. gr. c laganna verði rýmkaðar frá því sem nú er. Tilefni breytingarinnar er fyrst og fremst það að koma í veg fyrir að aðilar sjái sér hag í að brjóta lög um gjaldeyrismál, sem varða mikilsverða þjóðarhagsmuni, og tryggja að ávinningur af broti sé ekki meiri en sem nemur hámarki sektarheimildar. Í annan stað er lagt til að Seðlabankanum verði veitt heimild til að stöðva háttsemi sem talin er brjóta gegn ákvæðum laganna og kveða á um úrbætur, eftir atvikum að viðlögðum dagsektum. Tillagan á sér fyrirmyndir á öðrum sviðum löggjafar og er í því sambandi nærtækast að nefna úrbótaheimildir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með hliðsjón af þeirri bráðahættu sem viðskipti einstakra aðila geta haft fyrir greiðslujöfnuð þjóðarbúsins, ekki síst nú í tengslum við losun hafta, þykir eðlilegt að bankinn geti brugðist við með því að stöðva tilgreinda háttsemi og/eða krefjast úrbóta. Ávallt þyrfti þó að gæta meðalhófs við beitingu þessa úrræðis.

Framangreindar tillögur sem standa í tengslum við sektar- og þvingunarheimildir Seðlabanka Íslands komu sérstaklega til tals við undirbúning þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um gjaldeyrismál síðastliðinn sunnudag. Enda þótt tillögurnar séu brýnar var það niðurstaða mín sem ráðherra að ekki væri forsvaranlegt að leggja til við þingið að þær yrðu afgreiddar á sama hraða og fyrrnefndar breytingar.

Þá vík ég næst að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Í því frumvarpi eru lagðar til breytingar á þeim kafla laganna sem fjallar um slit fjármálafyrirtækja til þess að einfalda nauðasamningsumleitanir.

Líta verður til þess að sá fjöldi kröfuhafa sem lýst hefur kröfum við slit fjármálafyrirtækja er fordæmalaus. Mikill munur er á umfangi þeirra krafna sem lýst hefur verið þar sem lýstar kröfur við slitin hlaupa á nokkrum þúsundum til milljarða króna og að eignir búanna eru að meiri hluta til í erlendri mynt og jafnframt vistaðar í mörgum tilvikum á erlendri grundu. Með frumvarpinu er verið að bregðast við þeirri óvenjulegu stöðu án þess að gengið sé gegn meginreglunni um jafnræði kröfuhafa.

Tillögurnar í frumvarpinu eru þessar helstar: Heimilt verði að taka ákvörðun á kröfuhafafundi um ábyrgðarleysi manna sem sitja í slitastjórn vegna ráðstöfunar fjárhagslegra verðmæta sem tengist viðskiptum við Seðlabanka Íslands og áætlunum um losun fjármagnshafta. Slík ákvörðun bindi ekki þá kröfuhafa sem leggjast gegn slíkum ráðstöfunum. Þá er styrkari lagastoð skotið undir heimildir slitastjórna til að ráðstafa eignum í viðskiptum við Seðlabankann, eftir atvikum án endurgjalds, til að ljúka megi slitameðferð, sé ráðstöfunin talin þjóna hagsmunum kröfuhafa.

Slitastjórn verði heimilað að ávaxta eignir fallins fjármálafyrirtækis með fjárfestingum í skuldaskjölum til að veita svigrúm til samningsgerðar og uppgjörs milli þeirra fjármálafyrirtækja sem stofnuð voru á grundvelli laga nr. 125/2008 og hinna föllnu fjármálafyrirtækja. Slík heimild er einnig til að styðja við ráðstafanir sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt og í svokölluðum stöðugleikaskilyrðum.

Í frumvarpi að nauðasamningi skuli slitastjórn setja fram tímasetta áætlun um heildaruppgjör eigna. Jafnframt verði heimilt að bjóða greiðslu sem háð sé fyrirvara um innlausn og innheimtu eigna, sé sá fyrirvari skýr. Heimilt verði að leggja til í frumvarpi að nauðasamningi að allt að fjórðungi heildargreiðslna samkvæmt frumvarpinu verði ráðstafað til þess að greiða að fullu svokallaðar lágmarksgreiðslur. Slíkt getur í mörgum tilvikum tryggt fullar greiðslur til smærri kröfuhafa.

Að vissum skilyrðum uppfylltum verði slitastjórn heimilt að lækka að fullu eldra skráð hlutafé í hinum föllnu fjármálafyrirtækjum án tilkynningar til eldri hluthafa. Þá verði slitastjórn heimilt að líta til stöðu krafna á frestdegi án þess að tillit sé tekið til framsals þeirra fram til þess tíma.

Áskilið hlutfall kröfuhafa vegna atkvæðagreiðslu um nauðasamning verði lækkað þannig að í stað 70 hundraðshluta kröfuhafa sem nú þurfa að samþykkja frumvarp að nauðasamningi sé nægjanlegt að 60 hundraðshlutar þeirra sem greiða atkvæði samþykki nauðasamning. Eftir sem áður þarf frumvarp að nauðasamningi einnig að hljóta samþykki 60 hundraðshluta kröfuhafa eftir fjárhæðum. Lagðar eru til þær tilslakanir á formkröfum við atkvæðagreiðslur um frumvörp að nauðasamningi fjármálafyrirtækja að atkvæði megi senda rafrænt.

Þá er lagt til það viðbótarskilyrði sem uppfylla verði til þess að frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis verði staðfest fyrir dómi að mat Seðlabanka Íslands á áhrifum frumvarpsins fylgi og að í því mati komi ekki fram að frumvarpið teljist raska fjármálastöðugleika eða stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Þetta síðastnefnda skilyrði skiptir öllu fyrir þær tilraunir stjórnvalda að ljúka málinu í samræmi við skilgreind stöðugleikaskilyrði þar sem slitabúin mundu fyrir áramót ljúka nauðasamningum sem eyða þeim neikvæðu áhrifum sem uppgjör þeirra og útgreiðslur til kröfuhafa mundu að öðrum kosti hafa. Með þessu skilyrði er tryggt að það nær enginn að koma sér undan stöðugleikaskattinum með því að fara fram á nauðasamning fyrir áramót án þess um leið að sýna fram á að viðkomandi hafi að mati Seðlabankans gripið til nægjanlegra ráðstafana sem eyða áhættunni í tengslum við útgreiðslu til kröfuhafa. Með þessu er þannig tryggt að menn þurfa að fara aðra hvora leiðina og það er ekki hægt að skjóta sér undan skattinum eða stöðugleikaskilyrðunum. Við tryggjum með þessu að uppgjör slitabúanna nái sama markmiði fari menn nauðasamningsleiðina og áhrifin verða þannig þau sömu fyrir greiðslujöfnuð og yrðu með stöðugleikaskattinum.

Samkvæmt frumvarpinu verður slitastjórn jafnframt heimilað að víkja frá áskilnaði um að forgangskröfur séu fyrst greiddar, trygging sett fyrir þeim eða samþykki hlutaðeigandi kröfuhafa liggi fyrir, áður en nauðasamningur kemst á, þó þannig að forgangskröfur verði greiddar fyrst en síðan samningskröfur. Einnig verði slitastjórn auðveldað að efna nauðasamning gagnvart tilteknum kröfuhöfum þegar greiðslum verði ekki komið til kröfuhafa vegna þess að ágreiningur stendur um kröfur eða uppi eru vandkvæði sem varða kröfuhafa sérstaklega.

Loks inniheldur frumvarpið tillögu að breytingu á ákvæði til bráðabirgða í lögum um Seðlabanka Íslands sem heimilar bankanum að taka við fjárhagslegum réttindum með viðskiptum eða á annan hátt þegar slíkt má telja nauðsynlegt til að unnt sé að losa um fjármagnshöft eða í tengslum við viðbrögð við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Þessi síðastnefnda heimild er mikilvæg vegna þeirra stöðugleikaskilyrða sem ég fjallaði um í upphafi ræðu minnar. Í tillögum kröfuhafa búanna sem hafa verið birtar og stafa frá hópum kröfuhafa, og ber að horfa til þeirra í því ljósi, er gert ráð fyrir að gripið verði til ákveðinna ráðstafana sem draga úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum, m.a. með útgáfu skuldabréfa til íslenskra stjórnvalda. Mikilvægt er að árétta að með þeim aðgerðum sem leiða af stöðugleikaskilyrðunum er stefnt að því að leysa þann vanda sem skatturinn leysir að öðrum kosti eins og ég hef áður gert grein fyrir.

Þessar eignir sem mundu hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins ef þær flæddu óheft út eru vandinn sem við er að etja og verkefnið er að tryggja stöðugleika í efnahags- og peningastefnumálum þannig að almenningur og atvinnulíf þurfi ekki að axla frekari byrðar beint eða óbeint vegna falls bankanna haustið 2008.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginatriði þeirra frumvarpa sem ég mæli hér fyrir saman. Þau spila saman hvað það snertir að þau greiða fyrir nauðasamningum og með þeim breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki sem þar er að finna sýna stjórnvöld í verki viljann til að greiða fyrir þeirri leið að tilteknum skilyrðum uppfylltum, stöðugleikaskilyrðum sem Seðlabankinn hefur í þessari viku birt sérstaklega frekari leiðbeiningar um. Á sama tíma er kynntur til sögunnar sá skattur sem fellur á þau fjármálafyrirtæki sem ekki ljúka nauðasamningagerð fyrir lok þessa árs.

Þetta tvennt saman svarar helstu spurningunum sem uppi hafa verið vegna þeirrar hættu sem stafað hefur af uppgjöri slitabúanna. Með þessum lagabreytingum er tryggt í fyrsta lagi að uppgjör slitabúa getur farið fram án neikvæðra afleiðinga fyrir stöðugleikann í gengismálum. Í öðru lagi er tryggt að það gerist fyrr en ella ef ekki hefði verið gripið inn í, en þessi frumvörp ein og sér svara hins vegar ekki öllu öðru sem snýr að heildarmynd fjármagnshaftanna og þess vegna hefur verið greint frá því fyrr í þessari viku hvaða aðrar aðgerðir fylla upp í myndina þannig að við sjáum áætlun stjórnvalda í heildstæðri mynd. Það snýr að því að síðar á þessu ári er stefnt að útboði vegna aflandskrónuvandans, þeirrar snjóhengju sem fylgir aflandskrónunum, og þar er verið að fást við þá 300 milljarða sem aflandskrónusnjóhengjan snýst um. Í þriðja lagi höfum við greint frá því að við munum í kjölfarið á því að þessi tvö mál eru komin á rekspöl og hafa komist til framkvæmda taka næstu skref sem snúa að raunhagkerfinu á Íslandi. Það má segja að það hafi verið nauðsynleg forsenda allan tímann að fyrir lægju aðgerðaáætlanir um uppgjör slitabúanna og aflandskrónuvandann, það hafi verið forsenda að þær áætlanir lægju fyrir áður en menn sneru sér að raunhagkerfinu. Grundvallaratriði frá upphafi hefur verið, og það hefur verið leiðarljós okkar í þessari vinnu, að áætlun í þessum efnum væri heildstæð og tæki til allra þátta vandans.

Okkar markmið er að Ísland verði á ný fullgildur þátttakandi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og að hér verði losað um höft þjóðarbúinu að skaðlausu. Við þurfum að skera burt meinið sem hefur dregið úr okkur þrótt undanfarin ár en hvorki meira né minna en nauðsynlegt er til að tryggja heilbrigði hagkerfisins og halda áfram á braut uppbyggingar og aukinnar hagsældar fyrir landsmenn alla.

Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna jákvæðum viðbrögðum sem ný áætlun um þessi mál hefur fengið, bæði hér í þingsal og utan þings. Við höfum fengið vísbendingar um að nauðasamningar kunni að vera sú leið sem kröfuhafar fallinna fjármálafyrirtækja muni kjósa fremur en sú leið að fá á sig skattinn. En við skulum hafa í huga í því sambandi að þar eru ekki kröfuhafar að tala í krafti atkvæðagreiðslu en þó er þar um að ræða hóp kröfuhafa í hverju slitabúi fyrir sig sem stjórnvöld handvöldu eiginlega til samtals um þessi mál vegna þess að fyrir lá að þeir færu með áhrifamikinn hlut í hverju búi um sig. Það er þess vegna mikilvæg vísbending sem við höfum nú þegar um að sú leið kunni að vera farin, en það er langur vegur eftir fram undan áður en endanleg niðurstaða fæst í það mál. Þess vegna skiptir svo miklu að við ljúkum meðferð frumvarpsins um stöðugleikaskattinn og að við rennum núna stoðum undir aðgerðir sem greiða fyrir nauðasamningaleiðinni. Það verður síðan að koma í ljós á næstu mánuðum hvort menn fylgja þeim orðum eftir sem fram hafa komið á undanförnum dögum um að þeir muni kjósa stöðugleikaskilyrði og nauðasamning og hvort endanlega verður staðið við að undirgangast öll þau skilyrði sem þar eru sett fram. Það er grundvallaratriði. Nú þurfum við einfaldlega að ganga frá formsatriðum hvað þetta snertir. Með því tryggjum við að við komum hagkerfinu, íslenskum almenningi og fyrirtækjum í skjól hvað varðar uppgjör vegna slitabúanna og áhrif þess á gengismál og stöðugleika í landinu. Önnur atriði eru ekki sérstaklega til umræðu undir þessum frumvörpum, en þau hafa nú verið kynnt og sýna fram á að við erum hér að grípa til heildstæðrar lausnar.

Ég ætla að segja hér undir lokin að sú nálgun sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt á þetta verkefni tók sinn tíma en það var algjörlega óumflýjanlegt að vanda vel til verka og vinna þetta frá grunni. Vissulega var til staðar áætlun um afnám hafta en við höfðum lítið gert annað en að vera að herða höftin á undanförnum árum. Það var til staðar áætlun en hún var ekki fullunnin og það vantaði mikið af grundvallarupplýsingum til að fara í einstakar aðgerðir. Fyrst nefni ég það sem ég kom inn á í upphafi, að það átti eftir að skilgreina umfang vandans. Það tók talsverðan tíma og það er ekkert einfalt viðfangsefni. Það er reyndar hægt, að því er mér sýnist, og maður hefur lært það á undanförnum árum að upp að vissu marki er hægt að hafa ólíkar skoðanir á því nákvæmlega hvaða kraftar eru að toga og hverjir eru að ýta þegar kemur að því að meta áhrifin á greiðslujöfnuð. En við völdum þá leið að fara varfærnu leiðina og taka minni áhættu en meiri og ganga einfaldlega út frá því að ekki væri hægt að sætta sig við að uppgjör slitabúanna mundi setja þrýsting á gengið. Um leið og menn hefðu farið að semja sig frá þeirri afstöðu hefði verið erfitt að segja hvenær ætti að segja stopp. Væri í lagi að 50 milljarðar færu? Eða 200? Voru það kannski 390? Við sögðum: Nei, við viljum engan þrýsting á gengið. Þess vegna má segja að í þessum frumvörpum felist alger hreinsun af slitabúunum hvað snertir áhrif á gengismál. Í því felast áhrif stöðugleikaskattsins og í því felast sömuleiðis áhrif stöðugleikaskilyrðanna.

Þessi aðferðafræði, að vinna þetta svona frá grunni, opnaði fyrir möguleika til að vega og meta ólíka kosti til að takast á við vandann þegar hann var orðinn skýr. Ýmsu hefur verið velt upp á undanförnu ári en smám saman höfum við með lögfræðisérfræðinga (Forseti hringir.) okkur til fulltingis og aðra efnahagsráðgjafa innan og utan stjórnsýslunnar þróað þær leiðir og þau skilyrði sem nú birtast í þessum frumvörpum. Ég ætla að ljúka máli mínu á því að þakka öllu því góða fólki innan stjórnsýslunnar og þeim ráðgjöfum sem hafa verið okkur til liðsinnis fyrir þeirra gríðarlega mikilvæga framlag í þessu máli sem felur í sér einhverja stærstu efnahagsaðgerð sem við Íslendingar höfum ráðist í.