144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er eitt af stóru atriðunum í þessum málum að fara vel með ráðstöfun þess fjár sem kann að skila sér til ríkisins, hvort sem er eftir skattaleiðinni eða eftir stöðugleikaskilyrðunum. Þess vegna setjum við það beinlínis í frumvarpið að lögfesta reglu um það hvernig fjármununum skuli ráðstafað.

Varðandi samtal við kröfuhafa — ég hef oft átt þátt í samtölum um þetta hér í þingsal. Við höfum aldrei viljað fara í eiginlegar samningaviðræður við kröfuhafa, við höfum aldrei talið það rétt. Við vildum fyrst greina vandann eins og ég fór yfir í máli mínu, komast að niðurstöðu um það hvað þyrfti að gera. Okkar niðurstaða var sú að það væri óásættanlegt að hagkerfið þyrfti að aðlaga sig samhliða því að eignir yrðu greiddar út til kröfuhafa.

Þegar sú niðurstaða var fengin áttum við samtal við kröfuhafa sem fólst í því að upplýsa þá um áætlun okkar um að skattleggja okkur frá þessum vanda en um leið upplýstum við að við mundum greiða fyrir leið nauðasamninga og værum tilbúin til þess (Forseti hringir.) að þróa stöðugleikaskilyrði. Samtalið hjálpaði að einhverju leyti við það að þróa skilyrðin en við vorum aldrei til samtals um það hverju þau ættu að skila, eingöngu hvaða leiðir væru færar að því markmiði.