144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hæstv. fjármálaráðherra vitum bæði að það skiptir máli hvaða orð maður notar og ég skil alveg að hæstv. ríkisstjórn vilji forðast það orð eftir það sem sagt hefur verið, en mér heyrist að minnsta kosti að samtalið hafi skilað árangri og ég fagna því.

Hæstv. ráðherra nefndi það í ræðu sinni að tekið hefði talsverðan tíma að vinna frekari greiningarvinnu og það útskýrði væntanlega þann tíma sem það tók frá því að þverpólitísk nefnd lagði til í apríl 2013 að fengnir yrðu erlendir sérfræðingar til að liðsinna stjórnvöldum við að finna heildræna lausn um afnám hafta. Síðan var ákveðið í júlí 2014, sem sagt meira en ári seinna, að semja við ráðgjafa um vinnu vegna losunar fjármagnshafta. Því hefur verið haldið fram, án þess að ég viti neitt um það, að ein ástæða fyrir þeim langa tíma sem þetta tók sé að stjórnarflokkarnir hafi ekki verið einhuga um hvernig nálgast ætti málin. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra beint út hvort sú hafi verið raunin eða hvort þessi tími, þetta rúma ár, hafi allur farið í greiningarvinnu þarna á milli.