144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið prýðileg samstaða milli stjórnarflokkanna um það hvernig vinna ætti þetta mál. Oft er því haldið fram að sumir menn hafi viljað knýja á um gjaldþrotaleiðina. Ég segi bara varðandi gjaldþrotaleiðina að hún er sú leið sem skrifuð er í lögin, nái menn ekki nauðasamningi við slit fjármálafyrirtækis. Það var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að skilja til fulls hvað það þýddi. Hvað mundi gerast ef málið mundi enda í gjaldþroti? Sú leið gat vel orðið niðurstaðan, algjörlega án nokkurs atbeina stjórnvalda, eins og við höfum séð fyrir dómstólum, bara til dæmis ef einhver kröfuhafi hefði krafist þess að sú leið yrði farin og dómari hefði fallist á það þá varð sú leið ofan á. Við þurftum að skilja þá leið. Það var nauðsynlegt að taka það út og við gerðum það í sérstakri úttekt.

Sömuleiðis varðandi fyrra árið, þá var það fyrst og fremst greiningarvinna. Ég segi bara alveg eins og er, það var ekki skýrt þegar ég mætti í fjármálaráðuneytið hver þrýstingurinn vegna aflandskrónuvandans, (Forseti hringir.) slitabúanna og innanlandsþrýstings var nákvæmlega á greiðslujöfnuð á komandi árum. Sú vinna stóð yfir, reynt hafði verið að leggja mat á hana en það lá í raun og veru ekki fyrir fyrr en undir áramótin 2013/2014 hvernig sú mynd var í grófum dráttum.