144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var mat manna að opna þyrfti að fyrir erlenda fjárfestingu lífeyrissjóðanna eins fljótt og hægt er. Þetta fyrsta skref felur það í sér að það á að vera hægt að viðhalda því hlutfalli erlendra eigna lífeyrissjóðanna sem þær mynda í dag af heildareignum, þ.e. það sé um það bil sama hlutfallið af heildareignum þeirra sem verða erlendar eignir ef þessir 10 milljarðar fá áfram að streyma út.

Getum við tekið frekari skref á næstu árum? Við stefnum að því að geta aukið það, en þá erum við líka farin að glíma við aðra spurningu sem er þessi: Hvað viljum við að hlutfallið sé af heildareignum erlendis hjá lífeyrissjóðunum? Það er mjög stór og mikilvæg spurning. Hún snertir áhættudreifingu í lífeyriskerfinu en hún snertir líka greiðslujöfnuð okkar Íslendinga og þarf að fara í nokkuð flókna útreikninga á því hvernig það gerist síðan yfir vissan tíma að þeir fjármunir (Forseti hringir.) byrji að skila sér aftur með ávöxtun inn sem gjaldeyrisinnstreymi. Það er ekki alveg komið að því að svara þeirri spurningu.