144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins varðandi það að framan af hafi mögulega vantað skýr svör til slitabúa um hvað þyrfti til að þau fengju undanþágu og gætu lokið nauðasamningum, þá tengist það mjög því að heildstæð áætlun þurfti að vera til staðar og raunhæft mat á greiðslujafnaðarvanda Íslendinga, nákvæmt mat. Um leið og það lá fyrir var augljóst hvað þurfti að gerast. Þegar ég hef orðað það svo í umræðum um þessi mál að stilla þyrfti saman væntingar þá átti ég að sjálfsögðu við það að kröfuhafar slitabúa þurftu að aðlaga sig að þeim raunveruleika.

Það er ekkert launungarmál og hefur komið fram opinberlega að þegar það hefur verið rætt, til að mynda seint á síðasta ári, að til stæði að setja 35% útgönguskatt voru viðbrögð slitabúanna þau að það væri fullkomlega óraunhæft og kæmi aldrei til greina. Það er ekkert launungarmál að það var í samræmi við þau sjónarmið sem fyrstu viðbrögð kröfuhafahópanna voru þegar þeim voru kynnt áform okkar. Það má kannski segja að það hafi vantað hundruð milljarða upp á að þeir hafi sýnt eitthvert raunsæi.

Að öðru leyti vil ég segja það að þegar rætt er um bætta stöðu ríkissjóðs á komandi árum, meðal annars vegna afleiðinga þess að við náum að losa um fjármagnshöftin, tel ég að það sé sjálfsagt og eðlilegt að horft verði til frekari lækkana á sköttum og álögum á borgarana og fyrirtækin í landinu, til að mynda í tryggingagjaldi og annars staðar, en ég tek á sama tíma fram að það verður að sjálfsögðu að tímasetja slíkt vel. En það hlýtur að koma til skoðunar og á að vera til skoðunar. Sumir eru þeirrar skoðunar að frekar eigi að horfa til aukinna útgjalda eins og mér heyrist hv. þingmaður vilja frekar einbeita sér að, en varðandi fortíðina þá var það alveg skýrt, það var eitt helsta kosningamál Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) 2003 að lækka skatta. Við stóðum hér í orðræðu við Samfylkinguna eftir þær kosningar. Þeir sökuðu nýja ríkisstjórn um að svíkja (Forseti hringir.) loforðin um skattalækkanir, en svo komu þeir löngu síðar og sögðu: Það voru mistök að lækka skatta.