144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Það er nú gott að heyra að framsóknarmenn hafa ekkert lært af reynslu undanfarinna ára og halda áfram landráðabrigslum og öðrum svívirðilegum ásökunum, sem ég held satt að segja að þingforseti eigi að víta menn fyrir að hafa í frammi (Gripið fram í: Heyr, heyr.) í þingsal. Þetta er alvarlegra afbrot en að segja að maður sé þjófur, það er hærri refsirammi við þessu. Hv. þingmaður hefði verið víttur ef hann hefði sagt að ræðumaður væri þjófur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég vil undirstrika að hinn stjórnarskrárverndaði kröfuréttur er fyrir hendi. Þess vegna sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan: Þetta er hvorki meira né minna en nauðsynlegt er, vegna þess að í stjórnarskránni segir að eignarrétt megi ekki takmarka nema nauðsyn beri til. Það er það sem búið er að gera, það er búið að skilgreina nauðsynina. Það er það sem við vorum búin að leggja grunn að, nauðsyninni. Þess vegna sögðum við fyrir kosningar að taka ætti 75% afslátt af innlendum eignum kröfuhafa og það væri nauðsynlegt vegna þess að það væri raunvirði eignanna þeirra, (Gripið fram í.) það væri ekki verið að svipta þá stjórnarskrárvernduðum kröfuréttindum. Nákvæmlega sama sagði hæstv. fjármálaráðherra hér áðan.

Svo bið ég hv. þingmann að hugsa vandlega áður en hann hefur aftur í frammi í ræðustól Alþingis glæpsamlegar aðdróttanir um aðra þingmenn.