144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:03]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

(Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Það er ekki verið að brigsla einum eða neinum um glæpsamlegt athæfi. (KaJúl: Nei, nei.) (Gripið fram í.) Nei. Hins vegar er alveg ljóst að þú hafðir ákveðinn málflutning í frammi í aðdraganda síðustu kosninga og það er það sem ég hef eftir. Í framhaldi af þessu langar mig að spyrja þig, nú hefur þú sagt og sagðir í ræðu þinni — (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Forseti vill minna hv. þingmann á að honum ber að beina orðum sínum til forseta, ekki ávarpa einstaka þingmenn úti í sal.)

Í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar sagði hann að hver dagur hefði verið dýr síðustu árin og að þessi niðurstaða hefði þurft að liggja fyrir fyrr. Nú spyr ég: Hvernig stóð á því að heilsteyptar tillögur lágu ekki fyrir þegar síðasta ríkisstjórn fór frá? Í hvað var tíminn nýttur þau ár sem hún hafði hér til að undirbúa þessi mál í þaula og vera tilbúin með heilsteypta (Forseti hringir.) tillögu? Nú er ég ekki að tala um að þær hefðu þurft að koma til framkvæmda en að þær lægju hins vegar fyrir.