144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er rétt að í áætlun þáverandi ríkisstjórnar, sem ég kynnti í Þjóðmenningarhúsinu með seðlabankastjóra í marslok 2011, er fyrst og fremst talað um aflandskrónur, enda lá á þeim tíma ekki fyrir nein greining frá Seðlabankanum um hættur af útstreymi fjár vegna þrotabúa hinna föllnu banka. Ástæðan var væntanlega sú að slitaferlið var skammt á veg komið og lá engin greining fyrir um það. Þær greiningar urðu til í samvinnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans eftir að ég var farinn úr efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í árslok 2011 og var þeim komið strax inn í þingið í breytingartillögu við lögin sem flutt var af efnahags- og viðskiptanefnd í mars 2012. Þá voru erlendu eignir þrotabúanna og allar eignir þrotabúanna með öðrum orðum felldar undir gjaldeyrishöftin. Það var skrefið sem skapaði möguleikann á því að taka á vandanum.

Vegna spurningar hv. þingmanns um hvort ég telji ekki rétt að taka á þessu með heildstæðum hætti — jú, eins og ég lýsti, og við sögðum það meira að segja fyrir kosningar, við lýstum því í smáatriðum hvernig hægt væri að ná þessari niðurstöðu fyrir kosningar. Markmið okkar var algjörlega ljóst, við töldum að 75% afskrift af hinum innlendu eignum væri raunsætt mat. Hér sýnist mér vera heldur minna á ferðinni, en ég held að það sé bara eðlileg niðurstaða úr því samningaferli sem á undan er gengið. En grundvallaratriðið er að engin greining lá fyrir af hálfu Seðlabankans um þennan vanda, en ég held að hann að hljóti að hafa orðið mönnum ljós væntanlega rétt eftir að ég var farinn úr ráðuneytinu, því að síðan kom það hér beint inn í marsbyrjun 2012.