144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig sammála hæstv. fjármálaráðherra um að við verðum ekki í neinum vandræðum með að ná yfir fjármunum sem safnast upp í Seðlabankanum. Það munu finnast leiðir til þess að veita hagnaði og miklum arði þar sína leið inn í ríkissjóð, enda eru þetta bara tveir reikningar í sömu bók; ríkissjóður og Seðlabankinn eru bara eins og systur þarna hlið við hlið og Seðlabankinn í raun reikningur ríkissjóðs. Það er ekki stórt vandamál. Persónulega gæti ég alveg ímyndað mér að það væri skynsamlegt að fara sér hægt í því og leyfa Seðlabankanum að geyma talsvert af þessum fjármunum þegar búið væri að núlla út skuldabréfið o.s.frv.

Fjárhæðirnar og eðli þeirra gjörninga sem þarna verða gerðir, þeirra fjármálagjörninga sem búin munu þá reiða fram til að uppfylla stöðugleikakröfurnar, mun allt skipta máli. Ég held að óhjákvæmilegt sé að fara mjög vel yfir það. Þar kemur líka að sölu bankanna og þessum ákvæðum þar um, sem er kannski sá þáttur þessa máls sem ég hef að ýmsu leyti mestar efasemdir um. Það vill svo til að einu sinni sem oftar er ég sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni. Ég hrópa ekki húrra yfir því ef bankarnir, annar eða báðir jafnvel, eru á leiðinni beint í eigu erlendra aðila. Það geri ég ekki. Mér hefði vel fundist mega hugleiða fleiri kosti í þeim efnum varðandi bankana, mögulega einfaldlega þann að búin mættu greiða stöðugleikaframlagið að hluta til með eignarhlut í bönkunum. Af hverju ekki? Þá er svo hægt að skrá þá og setja á markað. Ég er svolítið hissa á því að það skyldi alveg vera haft undan.

Að lokum varðandi það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, að við værum búin að rétta vel úr kútnum og þessi mál ættu að hjálpa til að við gerðum það enn betur, þá er það vissulega rétt. Hér hefur verið samfelldur efnahagsbati frá haustmánuðum 2010. Það er ánægjulegt. Verg landsframleiðsla er núna orðin meiri að raungildi en hún var þegar hún var hæst fyrir hrun, hún er kannski ekki alveg jafn mikil að raungildi per mann, en það þýðir ekki að hin sjö erfiðu ár hafi verið strokuð út. (Forseti hringir.) Það er það sem ég á meðal annars við þegar ég segi að tjónið í þeim skilningi og mörgum öðrum verði aldrei bætt.