144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér stóð í þessum ræðustól nýverið hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir og bað þingheim um að fara að tala fallega hvert um annað. Óskað var eftir því að menn hættu að kalla hver annan lyddur og liðleskjur og ámóta orðum sem þulin voru hér upp. Maður getur að mörgu leyti tekið undir það. Hér er gengið svo miklu lengra en dæmin sem hv. þingmaður nefndi. Hér er beinlínis verið að saka þingmann um glæp, í þessum ræðustól. Ég segi, eins og aðrir hér, að hv. þm. Karl Garðarsson væri maður að meiri að koma hér upp og biðjast á þessu afsökunar.

Virðulegi forseti. Svona getum við ekki liðið í þessum sal, að menn tali svona hver um annan. Ég tek undir það sem hv. þm. Árni Páli Árnason sagði hér áðan: Það hefði meira að segja verið skárra að vera kallaður þjófur af hv. þingmanni.