144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ef rétt er með farið, að hv. þm. Karl Garðarsson hafi gefið það til kynna að hv. þm. Árni Páll Árnason hafi verið að vinna gegn þjóðarhagsmunum, eru það auðvitað stór orð. Við höfum ítrekað rætt það hér að það sé mikilvægt að við vöndum það hvernig við ræðum málin. Hins vegar veit ég það líka, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, að oft færist mönnum kapp í kinn og þá falla kannski jafnvel þyngri orð en menn hefðu viljað. Ég tek undir það sem hv. þingmenn hafa sagt hér, það er mikilvægt að við vöndum okkur við það hvernig við umgöngumst orðin því að það er auðvitað gríðarlega þung ásökun sem felst í því að gefa til kynna að hv. þingmaður hafi tekið afstöðu gegn þjóðarhagsmunum með einhverjum hætti.