144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þann 24. febrúar síðastliðinn spurði ég hæstv. forsætisráðherra út í mál sem við ræðum mjög mikið hér, þ.e. hvernig meðhöndla ætti þá miklu sjóði sem mögulega yrðu til við afnám hafta. Svar hans var á þá leið að væna mig um að bera hag kröfuhafa óeðlilega mikið fyrir brjósti. Sá málflutningur framsóknarmanna í garð okkar sem höfum viljað ræða þetta yfirgripsmikla mál málefnalega og opið er gjörsamlega óþolandi. Og nú tók steininn úr, hér fór hv. þm. Karl Garðarsson yfir mörkin. Þetta er komið nóg. Nú verður hv. þm. Karl Garðarsson að koma hér upp og biðjast afsökunar, ellegar rökstyðja mál sitt þá betur. Ætlar hann að standa við þessa ásökun? Ætlar hann að standa við þessar ásakanir í garð annarra um landráð, að aðrir séu hér að vinna á grundvelli einhverra annarlegra hagsmuna?