144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áðan nefndi ég það sérstaklega að áætlun Seðlabankans frá 2011 væri ekki grundvöllur þess sem við erum að ræða nú, en Seðlabankinn á hins vegar hrós skilið fyrir það sem hv. þingmaður nefndi í fyrirspurn sinni, þ.e. tillögurnar um þær breytingar sem gerðar voru á þeim góða degi 12. mars 2012. Það kom í kjölfar þess að hópur framtakssamra manna, og ég hugsa að hv. þingmaður þekki jafnvel suma þeirra og hafi átt einhver samskipti við þá, vann baki brotnu við að vekja athygli á þeirri hættu sem af því stafaði að slitabúin féllu ekki þarna undir.

Ég var ekki viss um það á sínum tíma þegar frumvarpið kom fram hvort það nægði til þess að ná þeim markmiðum sem það þó náði, svoleiðis að nú liggur það fyrir og hefur gert um nokkurt skeið að frumvarpið dugði vel, og engin ástæða til að gera lítið úr því.