144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eigum við ekki að vera glaðir á þessum degi? Eigum við ekki að leyfa okkur að vera stórir? Á ekki hæstv. forsætisráðherra að leyfa sinni duldu skaphöfn og eðliseinkunn að brjótast fram? Auðvitað er hann glaður yfir því að hér voru kvöldið 12. mars 2012 smíðuð vopnin, búin til haglabyssan, tálguð kylfan sem hæstv. forsætisráðherra hefur síðan notað. Hún ein, sú aðgerð, dugar til þess að leggja grunninn að því sem við erum að gera núna. Og af hverju viðurkennir hæstv. forsætisráðherra það ekki, alveg eins og ég get sagt við hann að hann er að vinna gott verk með þessum frumvörpum, m.a. vegna þess að mér sýnist að þau komi í veg fyrir þá hættu að það stafi einhvers konar vá að heimilunum í landinu í kjölfar gengisóróleika sem kynni að stafa af þessu? Af hverju segir hann ekki að það var þetta sem tálgaði kylfuna hans? Það er kannski ákveðin skýring á því. Hún er sú að hæstv. forsætisráðherra hafði ekki kjark til þess að standa gegn kröfuhöfunum sem (Forseti hringir.) fylltu hér þingið það kvöld, hann leiddi flokk sinn til hjásetu. (Forseti hringir.) Hann studdi það ekki að kylfan var tálguð, (Forseti hringir.) en hann sveiflar henni með sæmd í dag.