144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Mér finnst hún einmitt svolítið einkennileg þessi þörf forustumanna ríkisstjórnarinnar, og sérstaklega kannski hæstv. forsætisráðherra, til að afneita þessu samtali. Af hverju? Ég hefði haldið að samtalið væri lykilatriðið í þeim frumvörpum sem eru hérna núna og einstök gleðitíðindi að samtölin hafi skilað þeim árangri að lykilkröfuhafar eru reiðubúnir að ganga að skilyrðum Seðlabankans samdægurs, sama dag og þetta er kynnt. Það finnst mér mjög góður árangur og ég skil ekki af hverju andrúmsloftið er þannig gagnvart þessu verki að þetta sé ekki gott og þetta sé ekki dyggð. Þetta er það sem hefur verið kallað eftir og mér finnst þetta lykilatriðið í þessu öllu saman.

Ég held hins vegar að það hafi verið raunveruleg löngun sumra að fara í þetta mál með haglabyssuna. Mér hefur fundist menn tala á þeim nótum og ég hef gert athugasemdir við það. Ég held að það hafi verið það sem kannski hafi þurft að útkljá á endasprettinum að það væri ekki gott fyrir íslenska hagsmuni að vera með haglabyssuna á lofti, eða ég vil jafnvel segja fallbyssuna í þessu tilviki, vegna þess að stöðugleikaskatturinn er mjög róttækur. Það þurfti líka að vera með annað frumvarp sem er ekki beint gulrót heldur mundi ég segja frekar einhvers konar svipugöng, kröfuhafarnir fá þarna mildari leið til að ná sömu markmiðum. Það var mjög mikilvægt að sú leið væri fyrir hendi.

Ég get alveg séð fyrir mér að ef við hefðum Framsóknarflokkinn í stjórnarandstöðu núna þá mundi hann gera mjög miklar athugasemdir við að yfir höfuð sé verið að bjóða upp á þessa samningaleið. (Forseti hringir.) Ég get alveg séð fyrir mér stjórnarandstöðu eins og á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) sem væri að gera athugasemdir núna við samningaleiðina. Það er gott að ekki er verið að gera það.