144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í lok máls síns hér áðan — án þess að ég vilji vera einhver svartsýnisgella — að aldrei hefðu verið bjartari tímar á Íslandi. Vissulega erum við búin að stíga stórt skref, en mér finnst það djúpt í árinni tekið að segja að við höfum aldrei horft til bjartari framtíðar. Nú væri allt gott og nú gætum við farið að kaupa og nú gætum við gert þetta og nú gætum við gert hitt.

Virðulegi forseti. Við getum ekki gleymt því að ekki er búið að bæta það tjón sem við urðum öll fyrir þegar hið hræðilega efnahagshrun varð hér árið 2008. Jafnvel (Forseti hringir.) þó að fé muni streyma inn í ríkissjóð er langur vegur (Forseti hringir.) í það að við berum okkar barr eftir þau ósköp.