144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Efnislega sagði hv. þingmaður, í sinni prýðilegu ræðu áðan, að menn ættu hér í dag í svolítilli söguskýringarglímu. Þá rifjaðist það upp fyrir mér að sá hv. þingmaður sem fyrir einni og hálfri mínútu kallaði sjálfa sig svartsýnisgellu flutti í umræðum um ríkisfjármálaáætlun leiftrandi ræðu. Þar sagði hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir um hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson að hann væri fastur í fortíðinni og það væri enginn stæll yfir því. Mér er mjög minnisstætt svar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem var á þessa lund, með leyfi forseta, orðrétt:

„Mér finnst illa vegið að sagnfræðingum með því að segja að það sé enginn stíll yfir því að tala um fortíðina.“

Á þessum degi tel ég óhjákvæmilegt annað en að bregða lampa yfir fortíð þessa máls. Það skiptir mjög miklu máli, út af þeim orðum sem hafa fallið, að við skoðum hvað er hér á ferð og berum það saman við fortíðina. Við skulum ekki gleyma því að hæstv. forsætisráðherra barðist fyrir því missirum saman að farin yrði svokölluð gjaldþrotaleið. Það tók tvö ár að koma honum í skilning um það að hún skapaði mikinn háska fyrir Ísland. Þess vegna fara menn þessa leið sem í reynd er ekkert annað en samningaleið. Menn eiga samtal við kröfuhafa þar sem hlustað er eftir viðhorfum þeirra og út úr því kemur einhver niðurstaða.

Er ekki hv. þingmaður alveg sammála mér um það að það sem við ræðum hér er í reynd niðurstaða ákveðinnar samningaleiðar og að gjaldþrotaleiðinni var hafnað?