144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála því að það er hægt að ræða söguna með stæl og mjög mikilvægt að gera það á þessum tímapunkti. Það er mjög mikilvægt að fara yfir það, frá sjónarhóli margra þátttakenda í þessu ferli, hver skilningur manna er á því hvað hefur gerst. Það er mikilvægt að við drögum góðan lærdóm af þessu öllu saman og mikilvægt að við áttum okkur á því hvað er hér á seyði.

Já, ég held að á tímabili hafi ein tiltekin söguskoðun legið því til grundvallar að menn vildu fara þessa harðneskjulegu gjaldþrotaleið. Hún var sú að við værum fyrst og fremst fórnarlömb vondra útlendinga, hrægamma, í þessu öllu saman og að þessi peningur væri einhvers konar skaðabætur til okkar. Mér finnst það grundvallaratriði erfitt og ég hugsa að það hefði reynst þrautin þyngri að undirbyggja það fyrir dómi. Mér fannst þetta daður við umrædda gjaldþrotaleið vera því marki brennt.

Ég skýt ekkert loku fyrir það að þessi sjónarmið muni spretta upp þegar við förum að ræða þessar aðgerðir. Ég get, eins og ég rakti stuttlega áðan, alveg ímyndað mér annars konar stjórnarandstöðu sem stæði hér og segði: Heyrðu, þetta er allt of mikil linkind. Við eigum að fara í þessa hrægamma og sækja miklu meira fé. Vera með um 70% skatt og valda miklu tjóni og svona, það er fáránlegt að vera að semja og allt þetta. Ég held að það hafi tekið smátíma að vinda ofan af þessum viðhorfum. Ég (Forseti hringir.) tel að það sé gott að þeirra gæti ekki núna, vegna þess að ég held að það (Forseti hringir.) væri mjög erfiður leiðangur ef menn vildu fara í eitthvað slíkt.