144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er ég nú viss um að það eigi við um framsóknarmenn alla, sérstaklega ekki ef maður er á Facebook þessa klukkutímana vegna þess að fyrir nokkrum tímum skrifaði hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir að hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, væri að verja hag kröfuhafanna og væri að tala máli þeirra. Hún orðaði þetta einhvern veginn svona, þannig að menn eru nú enn þá í þessu og ég ætla svo sem mönnum ekki að gera það af illum hug.

Ég held hins vegar að menn hafi ekki fengið réttar upplýsingar og ég vona að ég hafi náð að varpa einhverju ljósi á það hvernig þetta fór allt saman fram og hvað var í gangi þarna. Það er vont ef um svona stórt hagsmunamál, eins og losun fjármagnshafta, ríkir ekki þokkaleg sátt eða að minnsta kosti trúnaður milli manna. En það hefur ekki gert það í þessu máli. Það er miður og ég tel að það hafi skaðað okkur síðastliðin tvö ár að hafa ekki getað náð að halda samstöðu um málið áfram þannig að við hefðum hugsanlega getað gert þetta miklu fyrr. Það er bara einfaldlega þannig, og komið hefur fram um kostnaðinn við að hafa þessi fjármagnshöft, þannig að ég held að við þurfum alla vega héðan í frá að reyna að læra af þessu máli og vera sanngjörn hvert við annað og reyna að horfa til framtíðar.

Það gengur ekki og er ekki til samstarfs fallið ef þingmenn stjórnarflokkanna eru hér að væna menn á vefsíðum sínum um það að ganga hér erinda einhverra kröfuhafa úti í heimi. En það er bara staðreynd, því miður, og undir því höfum við þurft að sitja í ansi mörg ár og við erum ekki til í að gera það þegjandi mikið lengur.