144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur svar og ræðu hennar hér á undan. Hún kom auðvitað inn á viðfangsefnið allan þann tíma. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er hér í sal og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom vel inn á það í ræðu sinni hversu mikilvægt það var að læsa inni eignir slitabúanna í mars 2012. Ég gat ekki heyrt betur en þeir hafi samfagnað þeim áfanga, hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Mjög mikilvægur liður í því ferli og það að við séum mögulega í þeirri stöðu sem við erum að horfa fram á með þessari áætlun sem nú er.

Það hefur komið vel fram í góðum umræðum í dag hversu erfitt það hefur verið að fá fram raunhæfa greiningu á umfangi vandans, hver þrýstingurinn er raunverulega á greiðslujöfnuð og greina á milli eðlis krafna þrotabúanna og síðan heildarumfangs aflandskróna og hvernig á að kljást við þetta. Hv. þingmaður var í ræðu fyrr í dag undir liðnum um störf þingsins og ræddi hún þar jafnframt um þessi tæki og tól og nefndi kylfur og gulrætur og svipu. Eins og ég horfi á málið er það auðvitað ekki umsemjanlegt, en hér verður eitthvert svigrúm að myndast. Við ráðum ekki við 1.200 milljarða umfang ef við horfum bara á það í samhengi við verga landsframleiðslu. En getur hv. þingmaður verið sammála mér um að það hafi verið mjög mikilvægt að greina umfangið og það hafi getað tekið þennan tíma og ekki síður það þá að þetta er flókið lagalegt og efnahagslegt úrlausnarefni þó að þetta sé birt með einföldum hætti?