144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta mál er komið fram og um það ríkir víðtæk sátt og samstaða. Þótt maður sjái ekki alveg fyrir endann á þessu þá finnst mér þetta lofa góðu. Mér finnst líka mikilvægt að það komi fram að í rauninni ber að þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu máli frá upphafi. Þegar ég tala um upphaf þá er það frá hruni, frá því neyðarlögin voru sett sem var rétt ákvörðun, höftunum komið á, slitabúunum komið undir höftin með lögum árið 2011. Að öllum þessum málum hafa náttúrlega komið fjölmargir sérfræðingar, innlendir og erlendir. Við vorum með AGS hérna á herðunum, innlenda og erlenda ráðgjafa og svo ekki sé talað um Icesave-málið sem tók auðvitað mikla orku, Seðlabankinn hefur auðvitað unnið þessa vinnu, Fjármálaeftirlitið, ráðuneytin og fleiri. Svo hafa stjórnmálamenn komið að því að ákvarða og móta stefnu og lagt sitt af mörkum. Væntanlega fjórir fjármálaráðherrar ef ég tel rétt sem hafa unnið að því að koma Íslandi aftur á lappirnar eftir hrun. (Gripið fram í.) Fimm ef við teljum Árna Mathiesen með, já, það er rétt.

Mér finnst í þessari umræðu núna manndómur að viðurkenna það sem vel er gert. Ef við erum í þeirri stöðu í dag að geta farið að losa um höftin þá er það ekki vegna þess að hér var allt gert vitlaust á árunum 2009–2013 og síðan hafi alviturt fólk komið og tekið við stjórn landsins. Þetta er búið að vera ferli og það hefur tekið þennan tíma og mér finnst í raun ekki boðlegt að tala eins og sumir hafa gert hér, m.a. hv. þm. Karl Garðarsson sem fyrr í dag sagði undir liðnum um störf þingsins, með leyfi forseta: „Núverandi ríkisstjórn er ekki með neitt kröfuhafadekur eins og stjórn Jóhönnu og Steingríms var. Þeirrar stjórnar verður helst minnst fyrir það að gefa banka og siga vogunarsjóðum á einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.“ Það er ekkert annað.

Þetta hefur aðeins verið rætt í dag, þegar menn ýja að því að stjórnmálamenn hafi haft einhverja annarlega hagsmuni að leiðarljósi og ekki bara gætt að hagsmunum Íslands. Nú er það þannig hvort sem mönnum líkar betur eða verr að kröfuhafarnir áttu sinn rétt. Hefði verið betra að hér hefði allt verið logandi í dómsmálum? Það er líka auðvelt í dag að koma og tala um Icesave-málið eins og það hefði bara verið hægt að kippa því í liðinn strax haustið eða veturinn 2009 en staðan var nú bara þannig að ef Ísland hefði ekki reynt að semja þá hefðum við hreinlega ekki fengið þau lán sem við þurftum að fá. Mér fannst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fara ágætlega vel yfir þetta í sinni ræðu. Mér finnst oft vera rík tilhneiging til þess að mála hlutina einföldum litum, svart og hvítt, en raunveruleikinn er oftast miklu flóknari en það.

Þannig að ég vil nota tækifærið til að hrósa hæstv. fjármálaráðherra sem mér finnst hafa staðið sig vel í þessu máli. Ég hef það svona á tilfinningunni, kannski er það meira tilfinning en eitthvað annað að hann hafi nú þurft að eiga svolítið við hinn stjórnarflokkinn, en þessi niðurstaða sem við höfum hér er mjög góð. Vonandi verður hún mjög góð. Vonandi tekst þetta vel.

Það er eitt sem gerir að verkum að maður er kannski hugsi. Það verður auðvitað ekki þannig að við munum afnema höftin. Hér verður eitthvað losað um þau, menn ná kannski að vinna í þeim málum sem snúa að slitabúunum og kannski aflandskrónunum, en ég sé ekki að krónan verði bara frjáls og óháð á erlendum mörkuðum. Mér fannst myndin í Fréttablaðinu í morgun vera mjög lýsandi þar sem krónan hleypur út úr Seðlabankanum og er frjáls og stekkur út í sjó, þar sekkur hún. Mér finnst við virkilega þurfa að taka þá umræðu hvort við ætlum að vera áfram með íslenska krónu og þá með hvaða hætti. Væntanlega ekki fljótandi gengi eins og var 2001–2009. Þetta er kannski ekki umræða sem við þurfum að taka hér og nú, en mjög fljótlega. Við í Bjartri framtíð höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að stjórnvöld móti sér stefnu í gjaldmiðilsmálum. En mér heyrist afstaða stjórnvalda vera sú að íslenska krónan hafi reynst vel og við verðum með hana áfram. En það dugar mér ekki alveg vegna þess að að mínu viti hefur tilraunin með íslensku krónuna mistekist. Ef við erum að tala um aukin lífsgæði og annað þá ættum við að reyna að horfa til þess að lækka vaxtastig og tryggja stöðugleika sem er erfitt með krónu og endalaust gengisflökt og þar sem verið hefur verðbólga undanfarin ár, ekki mest vegna þenslu í hagkerfinu, heldur meira vegna gengisbreytinga.

Mér finnst mjög mikilvægt að þetta mál fái þann tíma sem það þarf í þinginu. Það þarf svo sem ekki að tefja þessa umræðu, málið fer væntanlega til nefndar á morgun eða hinn og fer sína leið í kerfinu. Mér finnst alltaf áhugavert að sjá umsagnir um mál þannig að það verður kannski meira um að ræða í 2. umr. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem fram hefur komið í dag. Mér finnst þetta gleðilegt. Ég mundi kannski vilja segja að mér finnst því miður hafa verið meiri stælar í framsóknarmönnum, frekar en sjálfstæðismönnum, sem hafa verið að hnýta í það sem gert var á síðasta kjörtímabili. Mér finnst að við ættum að viðurkenna það að menn unnu hér við ótrúlega erfiðar aðstæður. Að sjálfsögðu eru gerð mistök. En þegar upp er staðið þá hefur okkur tekist ótrúlega vel til. Ég held að enginn hafi séð það fyrir þegar hrunið skall á og Geir Haarde blessaði Ísland að við yrðum í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Ég sá það alla vega ekki fyrir. Ég var alveg viss um að ég mundi til dæmis ekki hafa efni á því að eiga bíl og ég veit ekki hvað maður hugsaði ekki á þessum tíma. Það hefur tekist vel til og mér finnst að við eigum að gefa fólki það sem vel er gert. Ég vil þar af leiðandi hrósa stjórnvöldum fyrir að hafa unnið vel í þessu máli. Hugsanlega hefði mátt gera þetta fyrr, ég veit ekkert um það, en nú er þetta komið og það er vel.