144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki algjörlega sammála því sem hv. þingmaður lét sér um munn fara þegar hún sagði að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hefðu yfirleitt í þessu máli allir verið með einhvers konar stæla. Hv. þm. Willum Þór Þórsson hefur að minnsta kosti reynst undantekning á því. Hann flutti hér ræðu áðan, stutta að vísu, í andsvari þar sem hann var ákaflega stórlyndur og sagði sína skoðun að vissulega hefði þessi ríkisstjórn sem nú situr unnið ákaflega gott verk, en hann gaf jafnframt tveimur öðrum ríkisstjórnum sem setið hafa kredit fyrir góð verk. Þannig á það að vera.

Ég er í reynd eins og hv. þingmaður Willum Þór Þórsson sammála því sem ræðumaður rökstuddi í sinni prýðilegu ræðu að hér hafa margir komið að málum. Mestu skiptir að allt lítur út fyrir að lendingin verði farsæl. Ég segi til dæmis fyrir mig eins og ég held ég hafi sagt í dag að fargi var af mér létt við það að lesa þetta, fannst þetta vera traust lausn, engar sjónhverfingar, það væri búið að hugsa fyrir mjög miklu. Óttinn sem að steðjar þegar ráðist er í svona vandasama aðgerð er auðvitað sá að afleiðingar hennar á gengið kunni að verða þungar og leiða til búsifja fyrir heimilin. Ég vísa til þess að ég sagði oft að menn ættu ekki að ráðast í svona nema skoða það mjög rækilega hvort ekki ætti að aftengja vísitöluna til þess að koma í veg fyrir slíkt, alveg eins og menn íhuguðu á sínum tíma en gerðu ekki, en mér finnst eftir á að við hefðum átt að gera.

Þetta var bara það sem ég vildi segja, koma hér til þess að draga þessi sjónarmið mín fram og segja það að ég er hv. þingmanni sammála um að menn eiga að gleðjast yfir þessu og reyna eftir föngum að stýra þessu saman til hafnar. Ég tek líka hjartanlega undir með hv. þingmanni, það er engin ástæða til þess að tefja mál af þessu tagi til þess að fara til nefndar þar sem það verður skoðað í hörgul, vegna þess að það er (Forseti hringir.) mjög flókið, textar að baki eru mjög flóknir.