144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sem betur fer hefur Seðlabankinn þanið sig á markaði og verið eins agressífur við að kaupa og safna gjaldeyri eins og framast er unnt án þess að setja úr lagi það jafnvægi sem þrátt fyrir allt ríkir. Seðlabankinn hefur auðvitað líka vandað sig mjög og gripið til aðgerða sem eru kannski ekki endilega vinsælar. Ég vísa til þess að í dag hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 50 punkta og seðlabankastjóri lýsti því jafnframt yfir að það mundi þurfa kraftaverk til þess að ekki þyrfti að halda áfram þeirri vaxtahækkunarlotu. Það skiptir miklu máli, ekki bara vegna atburða sem hafa orðið á vinnumarkaði, heldur skiptir vaxtamunurinn við útlönd höfuðmáli um það hversu mikið strok verður í íslenskum krónum þegar höftunum verður aflétt. Eftir því sem vextir eru hærri hér því líklegra er að færri krónur leiti út eða viljinn til stroks verði minni, þannig að ég ímynda mér að Seðlabankinn muni vera agressífur í þessu og hann muni ekki vinna neinar vinsældakeppnir út á það. En það er bara eitt af því sem fylgir kóngsins járni og arbeiði þeirra sem þar stýra málum við þessar aðstæður.

Hv. þingmaður eins og ég gat um áðan setti fram þá skoðun sem ég er henni sammála um að þessu máli þyrfti að koma til nefndar hið fyrsta. Tillögurnar eru kannski einfaldar, en það er bakefnið, það er greinargerðin sem öllu máli skiptir. Það er þar sem hv. þingmenn þurfa að sannfærast um að hnútar séu rétt hnýttir vegna þess að ef kemur til einhvers konar togstreitu um þennan lagalega gerning millum okkar og kröfuhafa þá mun það byggjast á því hvernig túlka ber þá (Forseti hringir.) greinargerð og þess vegna skiptir hún mestu máli. Þess vegna er þarft að koma þessu máli sem fyrst í vinnu okkar sérfræðinga sem eru þeir þingmenn (Forseti hringir.) sem best þekkja þessi mál.