144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:29]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, þessi tímalína er akkúrat það sem við höfum verið að ræða. Þess vegna, eins og ég sagði í ræðu minni, finnst mér skipta máli að halda því til haga af því þetta er ekki mál sem við eigum að setja okkur á háan hest yfir og hver og einn að reyna að eigna sér það, heldur skiptir máli að við settum þessi höft á í sameiningu og við losum þau í sameiningu. Stóri áfanginn er vissulega þegar höftin voru sett og neyðarlögin á sínum tíma og síðan dagsetningin í mars þegar við læstum slitabúin inni í hagkerfinu með haftaaðgerðinni. Eins og við höfum verið að ræða er það það sem gerir mögulegt í dag að leggja á skatt og annað því um líkt, að þessi aðgerð var framkvæmd þrátt fyrir að fæstir gerðu sér í rauninni grein fyrir því hversu mikilvæg aðgerðin var. Ég held að við séum öll sammála um það.

Það eina sem ég hef sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með í þessu ferli er þessi þverpólitíska nefnd, sú síðari. Ég hefði viljað að hún hefði meiri aðkomu að ferlinu en hún hefur haft. Hún var aðallega að taka á móti tilkynningum og henni voru tilkynntir ákveðnir hlutir en hún hafði ekki eins og sú fyrri beina aðkomu að því að liðsinna stjórnvöldum og vera svolítið með í ferlinu, meira en hefur verið. Ég hefði viljað sjá það gerast.

Ég held að (Forseti hringir.) akkúrat þessi slagur, eins og hv. þingmaður sagði, í þessi ár hafi leitt okkur hingað í dag. Það er vel.