144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er af nógu að taka. Mér hefur þótt umræðan hér um þessi tvö frumvörp og um þetta mál í heild sinni afar góð og gagnleg í allan dag og margar góðar ræður hafa varpað ljósi á málið. Mér finnst umræðan heilt yfir hafa verið yfirveguð. Það er auðvitað mjög mikilvægt í ljósi þess að þetta er einhver stærsta efnahagslega aðgerð sem við höfum staðið frammi fyrir sem þjóð og löggjafi í okkar þingsögu, leyfi ég mér að segja, ef ekki væri fyrir þann tíma sem við merkjum lýðveldissögunni. Gott og vel.

Það er mjög mikilvægt og auðvitað pólitísk í vissum skilningi að einhvers konar keppni sé um það að koma sjónarmiðum að og allir vilja Lilju kveðið hafa þegar eitthvað gott kemur. Þegar ég horfi á þessi tvö frumvörp og þær áætlanir sem í þeim birtast þá gefur það til kynna að þegar hægt er að setja jafn flókið lagalegt efnahagslegt viðfangsefni fram með jafn einföldum og skýrum hætti að vinnan á bak við það sé vönduð og góð.

Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að við veltum upp spurningum og förum vel yfir frumvörpin í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þau eru eðlisólík. Stöðugleikaskatturinn er nokkuð skothelt frumvarp en hitt er öðruvísi lagatæknilega séð. Við munum örugglega fást við það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.