144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta vinnuumhverfi hér er að verða ansi undarlegt og eftir að starfsáætlun rann út hafa lausatökin orðið algjör. Nefndatafla er komin í gang að einhverju leyti en einungis gefinn kannski klukkutími fyrir nefndirnar til að starfa og á þeim tíma þarf að fara yfir alls konar mál því að enginn veit hvað er í forgangi og hvað það er sem ríður á að klára. Svo tekur við dagskrá þingfundar þar sem enginn veit að kvöldi hvenær þingfundurinn á að byrja. Svo bætist það við að ráðherrarnir hafa greinilega einhverju öðru að sinna en að vera hér til þess að svara spurningum þingmanna. Flestir ráðherrarnir, fyrirgefðu, hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir, eru að gera eitthvað annað. Við verðum þess vegna annaðhvort að semja um þinglokin eða, og ég vil þar taka undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, setja aftur einhverja töflu í gang með alvöruskipulagi.