144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að það hljóti að vera kominn tími á starfsáætlun. Kannski hafa flestir hæstv. ráðherrar verið búnir að gera einhver plön og þess vegna eru þeir ekki til svara í dag. Það er kannski búið að bóka vel fram í tímann, eðlilega, og það er kannski akkúrat það sem við þingmenn höfum verið að gera líka. Það er alveg ljóst að hér þarf að koma fram ný starfsáætlun ef ætlunin er að halda áfram þingi, sem er allt í lagi en þá er gott að ramminn sé utan um það.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við það að hæstv. forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, víkur úr sal þegar málið snýst um það að verið er að beina gagnrýni gegn honum, m.a. hans verkstjórn og því að ráðherrar hans séu ekki hér til svara. Það er lágmarkskurteisi að hann hlusti á þegar þingmenn kvarta yfir þessari fundarstjórn því að það er ekki heldur samtal, virðist vera, og það er óvirðing í því fólgin, milli ríkisstjórnarinnar og forseta þingsins (Forseti hringir.) sem veit ekki fyrr en örfáum mínútum fyrir þinghald að ráðherrar eru hér ekki til svara.