144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í tólf daga eða svo hefur þessu þingi verið stýrt eftir hentugleika ráðherranna. Ég ætla að leggja til að hæstv. forseti taki stjórn þingsins í sínar hendur að nýju, setji okkur starfsáætlun, setji niður fundatöflu þannig að við sem hér erum og nennum þó að mæta hingað og eiga samtal um þau brýnu mál sem liggja fyrir getum að minnsta kosti skipulagt okkar tíma. Við höfum ekki sama svigrúm til þess og ráðherrarnir til að koma hér og fara eins og við viljum. Ég legg þetta því til.

Við höfum öll hér skuldbindingar gagnvart fjölskyldum okkar í sumar. Við höfum gert loforð gagnvart börnum, gagnvart mökum um það með hvaða hætti sumrinu verði háttað. Ég fer því fram á það að hér verði sett einhvers konar starfsáætlun þannig að við getum þá að minnsta kosti endurskipulagt þann tíma sem við höfum lofað fjölskyldum okkar, við getum þá að minnsta kosti gert einhverjar breytingar á honum vitandi hvað fram undan er.