144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég var við skólaslit barna minna í Melaskóla í gær, hvort á sínum tímanum og fékk þess vegna að hlusta tvisvar sinnum á sömu ræðuna hjá skólastjóranum sem batnaði bara í flutningi, en talað var dálítið mikið um kurteisi. Það er nefnilega þannig með kurteisina að hún kostar afskaplega lítið en gefur gríðarlega mikið af sér. Það að koma fram hvert við annað af virðingu og kurteisi mundi bæta alveg gríðarlega mikið andrúmsloftið í þinginu. Bara það að vera tilbúinn að hlusta hvert á annað, það er nú ekki beðið um mikið, mundi skila miklu.

Ég beini því til hæstv. forsætisráðherra að hann íhugi þetta. Hann þarf ekki einu sinni að blanda sér í umræðuna heldur aðeins sýna þá lágmarkskurteisi að hlusta á það sem menn hafa að segja hér.

Virðulegur forseti. Þetta var nákvæmlega það sem við sögðum þegar ramminn var settur á dagskrá og í þeirri orrahríð sem hefur verið hér undanfarið. Það er ekki gott fyrir okkur (Forseti hringir.) að fá þessi mikilvægu frumvörp inn í það andrúmsloft tortryggni, reiði og sundrungar sem er heimatilbúinn vandi hér í þinginu.