144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

breytingar á stjórnarskrá.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og það er ánægjulegt ef nægjanleg sátt tekst um þessi fjögur ákvæði þannig að unnt verði að virkja þetta breytingarákvæði. Ég held hins vegar að það sé allrar athygli virði að við endurskoðum það til frambúðar hvernig við breytum stjórnarskrá, þ.e. ef þetta tekst gæti það líka verið vísbending um að breyta þurfi því ákvæði til frambúðar, því að hér hafa breytingar einmitt oft steytt á skeri vegna breytinganna eins og þær eru núna skilgreindar í stjórnarskrá, þ.e. að það þurfi tvö þing til.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra enn fremur hvort við megum eiga von á því — nú hefur annað af sætum Framsóknarflokksins í þessari nefnd staðið autt alllangan tíma eftir að annar fulltrúi flokksins sagði af sér setu í nefndinni, þar höfum við að vísu haft feikilega góðan fulltrúa Framsóknarflokksins, fyrrverandi hæstv. ráðherra og þingmann, Jón Kristjánsson. En mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hvort til standi að fylla hitt sæti Framsóknarflokksins í nefndinni.