144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

endurskoðun laga nr. 9/2014.

[10:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir áhuga hennar á þessu máli og líka eftirfylgnina. Það er rétt sem þingmaðurinn bendir á að það hafa verið ákveðin vonbrigði hversu hátt synjunarhlutfallið hefur verið á grundvelli þessara laga. Við lögðum til ákveðin skilyrði varðandi gjaldþrotaskipti og gerðar voru breytingar á því í meðferð þingsins til samræmis við þau viðmið sem eru í lögum um greiðsluaðlögun.

Ég hef því í hyggju — og það mun koma núna á næstu þingmálaskrá — að koma með frumvarp og hef kynnt það fyrir ríkisstjórn, um breytingar á skilyrðum sem varða bæði greiðsluaðlögun og gjaldþrotaskipti. Ég veit að umboðsmaður skuldara hefur líka verið að fara yfir þá úrskurði sem hafa komið frá úrskurðarnefnd greiðsluðalögunarmála og tekið upp einstök mál sem varða synjanir þannig að vonandi mun það leysa úr einhverjum málum. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að gera breytingar. Síðan er það að sjálfsögðu þingsins að taka afstöðu til þess hvort þingmenn séu sammála þeim breytingum sem við munum leggja til. Ég hef í hyggju að koma fram með þetta frumvarp strax á haustmánuðum. Það skýrir líka af hverju við höfum ekki sett þessa reglugerð.

Síðan vil ég bæta við að til þess að koma frekar til móts við skuldara — og enn á ný þakka ég fyrir hvatninguna frá hv. þingmanni hvað það varðar — hef ég undirritað reglugerð sem heimilar stjórn Íbúðalánasjóðs að afskrifa það sem stendur umfram virði eignar á þremur árum í staðinn fyrir fimm árum. Ég vona að fólk sem er í þeirri stöðu að vera enn með einhverja kröfu á sér skoði þann möguleika að óska eftir því að sjóðurinn felli niður kröfuna.

Svo vil ég líka benda á að í nýju frumvarpi um húsnæðisbætur er sérstaklega komið til móts við þá sem búa í eignum sínum eftir að hafa misst þær á nauðungarsölu þannig að það fólk mun líka eiga rétt á húsnæðisbótum þegar það kemur til framkvæmda.