144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum risavaxin mál sem við höfum rætt talsvert á Alþingi undanfarna vetur og talsvert mikið spurt eftir stöðu þeirra mála. Mér finnst ástæða til þess í minni ræðu að fara aðeins yfir stóru línurnar í þessum málum. Ég vil byrja á að segja og ítreka það sem kom fram í andsvörum mínum í gær að ég fagna því að þessi frumvörp eru komin fram og fagna þeim aðferðum sem þarna eru boðaðar. Ég tel að þarna sé skynsamlega að verki staðið og tvímælalaust byggt á þeirri vinnu sem áður hefur verið unnin og tek því undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem sagði í gær í ræðu sinni að þakka bæri öllum þeim ríkisstjórnum sem hefðu komið að þessu máli allt frá því að neyðarlögin voru sett 2008 og til dagsins í dag. Það er hægt að fara hratt yfir tímalínu málsins því að eins og hér hefur komið fram var höftunum komið á þegar gjaldeyrislögum var breytt haustið 2008 sem reynist hafa verið, eins og við höfum vitað, rétt ráðstöfun og skipt miklu máli. Í kjölfarið var fyrsta áætlun um afnám hafta sett fram og um leið reynt að útbúa heimildir til að heimila innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga. Árið 2011 var önnur áætlun um afnám hafta sett fram og um hana hefur staðið ákveðinn styr því að það hefur komið fram hjá til að mynda seðlabankastjóra þegar þessi áætlun var núna kynnt að hér væri byggt á þeirri áætlun sem kynnt var 2011 um afnám hafta.

Ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur verið annarrar skoðunar og fundist mjög mikilvægt að reyna að gera lítið úr árangri fyrri ríkisstjórnar í þessu máli en það liggur fyrir að hér er byggt á þeirri hugmyndafræði þó að vitanlega sé búið að útfæra hana talsvert betur. Síðan má heldur ekki gleyma mikilvægum áfanga sem einnig barst í tal í umræðunni í gær sem er þegar slitabúin voru sett undir höftin og þáverandi stjórnarandstaða, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, greiddi því ekki atkvæði sitt og vildi ekki styðja að slitabúin yrðu sett undir höft sem reynist hins vegar hafa verið mjög afdrifarík ákvörðun.

Þverpólitísk nefnd starfaði á þessum tíma og hún lagði til í apríl 2013 að fengnir yrðu erlendir sérfræðingar til að liðsinna stjórnvöldum til að finna heildstæða lausn á afnámi hafta, en eins og hér hefur líka komið fram var ekki ráðist í það mál fyrr en í júlí 2014. Þær ástæður sem hafa verið gefnar upp fyrir því eru að nauðsynlegt hafi reynst að vinna nánari greiningarvinnu. Gott og vel, vissulega hefur þetta tekið langan tíma en árangur af starfi þessara sérfræðinga liggur nú fyrir.

Það liggur líka fyrir að talsverðum tíma var eytt í að kanna aðrar leiðir. Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér í gær en eins og ég segi er aðalmálið, og um það getum við verið sammála, að þetta er mikilvægt hagsmunamál og hér er verið að stíga raunhæf skref til þess að afnema höftin þó að það sé auðvitað enn þá langur vegur fram undan í því að framkvæma það afnám.

Við höfum aðeins farið yfir það og það liggur fyrir að hér hafa menn viljað ræða þessi mál á ólíkum forsendum. Það eru nokkur atriði sem ég vil fara yfir í því. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hefði farið betur á því að hafa þessa umræðu miklu opnari. Ég tel í raun ekkert mæla gegn því nú þegar niðurstaða liggur fyrir og það mælti ekkert gegn því að hafa þessa umræðu opnari allan tímann. Ég gef lítið fyrir þær ástæður sem hafa verið gefnar fyrir því að nauðsynlegt hafi verið að halda þessum áætlunum leyndum fyrir kröfuhöfum þegar í ljós kemur að allir þessir möguleikar hafa verið uppi í umræðunni og einhvers konar skattlagning var viðruð í afnámsáætlun stjórnvalda frá árinu 2011. Af því að hér hafa ýmsir vitnað í það hvað fólk hefur sagt áður fyrr finnst mér líka rétt að halda því til haga að fyrir kosningarnar 2013 sagði ég sjálf að ég teldi að einhvers konar útgönguskattur eða skattur sem tryggði að útflæði fjármuna mundi ekki skerða kjör almennings í landinu væri möguleg leið ef ekki næðust ásættanlegir nauðasamningar við kröfuhafa. Ég sé ekki betur en að það sé sú leið sem nú liggur á borðinu. Í allri þessari umræðu höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði haldið þeim aðalsjónarmiðum á lofti að afnám hafta er mikilvægt en það má ekki verða til þess að auka byrðar almennings í þessu landi, nógar eru þær samt og nógar hafa þær verið undanfarin sjö ár eftir að hrunið skall á. Ég vona að þessi sjö mögru ár séu nú að baki og hefði helst kosið að við værum þegar komin á þann stað að hér væri hafin uppbygging til framtíðar og að staðan á vinnumarkaði væri til að mynda ekki með þeim hætti sem hún er því miður núna. Ég verð að segja að það hryggði mig mjög að heyra þau tíðindi seint í gærkvöldi að samningaviðræðum hefði verið slitið milli ríkisins og BHM og ég tel að þar þurfi stjórnvöld að sjálfsögðu að horfa til framtíðar og hvernig við ætlum að byggja upp innviði samfélagsins á borð við heilbrigðiskerfi sem er hreinlega í hættu út frá þeirri stöðu sem er núna á vinnumarkaði, bæði verkfalli BHM og verkfalli hjúkrunarfræðinga. Ég ítreka það sem ég hef margoft sagt áður, að ég tel að lagasetning á þær aðgerðir gæti verið afar afdrifarík til framtíðar í ljósi þess að hér er skortur á starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og ástæða til að ætla að slík lagasetning mundi skapa enn ríkari skort á starfsfólki innan heilbrigðiskerfisins.

Svo við víkjum aftur að höftunum liggur fyrir að annars vegar er um að ræða frumvarp um stöðugleikaskatt sem verður þá lagður á út frá eignastöðu í lok þessa árs, þ.e. eignastöðu þann 31. desember 2015, að hann verði 39% og innheimtur 2016, en þeir aðilar sem uppfylli svokölluð stöðugleikaskilyrði muni ekki greiða þennan skatt heldur gera þetta í raun og veru í gegnum samkomulag. Menn hafa togast talsvert á um orðanotkun í þessum málum, en það liggur líka fyrir og hefur komið fram í umræðum í þinginu að fulltrúar stjórnvalda áttu samtal við kröfuhafa. Stjórnvöld hafa ekki viljað meina að þetta séu beinlínis samningaviðræður. Í samtalinu var hlustað eftir sjónarmiðum kröfuhafa og stöðugleikaskilyrðin voru útfærð í kjölfarið. Menn hafa sagt að þeir séu ekki til samninga um þjóðarhagsmuni. Að sjálfsögðu er enginn hér til samninga um þjóðarhagsmuni.

Ég held að það sé líka mikilvægt að við forðumst þá umræðu sem hefur örlað á, og kannski meira en örlað á, hefur því miður verið allt of áberandi hjá sumum hv. þingmönnum, að þetta snúist um að einhverjir vilji taka sér stöðu með erlendum kröfuhöfum gegn einhverju öðru. Það var gott að umræða um þau mál fór fram á þinginu í gær og hreinsaði talsvert loftið því að ég er sannfærð um að allir hér inni eru fyrst og fremst að vinna að þjóðarhagsmunum. Þjóðarhagsmunir snúast í þessu máli um að við fáum ásættanlega niðurstöðu fyrir íslenskt samfélag, íslenskan almenning þannig að unnt verði að létta af höftum án þess að þau kjör skerðist. Um það snýst þetta.

Það liggur líka fyrir að þetta samtal fór fram. Mér finnst það klókt. Mér finnst eðlilegt að þessi samtöl hafi farið fram. Mér finnst eðlilegt að það hafi verið reynt að ná þessu samkomulagi þannig að þá liggur fyrir að slíkt samtal fór fram og í kjölfarið voru stöðugleikaskilyrðin mótuð, en stöðugleikaskatturinn er við endann á göngunum eins og mætti orða það, þ.e. þeir aðilar sem ekki vilja leggja slíkt framlag fram munu þá þurfa að greiða skattinn. Þetta er líka eðlileg samningataktík.

Við höfum rætt talsvert um hvernig nákvæmlega eigi að fara með þetta mál í þinginu. Mér finnst mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fái tíma til þess að fara yfir þessi mál með sérfræðingunum þannig að nefndin geti fengið sem gleggsta mynd því að vissulega er þetta flókið mál. Maður finnur að þrátt fyrir að þetta hafi verið mál dagsins á sunnudaginn og talsvert í fréttum segir fólkið úti á götu: Já, en hvað nákvæmlega felst í þessu og hvað þýðir þetta fyrir okkur sem búum hérna, lifum og hrærumst?

Það er hv. nefndarmanna að fara vel ofan í þessi mál þannig að við getum gefið almenningi sem gleggsta mynd af því hvað felst í þessum frumvörpum.

Það liggur líka fyrir að það þarf að spyrja spurninga á borð við þær sem ég hef spurt sem snúast fyrst og fremst um það hvað nákvæmlega hafi falist í greiningarvinnunni árið 2013–2014, sem hæstv. ráðherra fór raunar aðeins yfir í gær, en líka er mikilvægt að kanna óvissuna í matinu á því hvert stöðugleikaframlagið verði þannig að við fáum sem gleggsta mynd af því hver óvissan er í þessum málum. Hér hafa verið nefndir 400–500 milljarðar í þeim efnum.

Það liggur líka fyrir að við þurfum auðvitað að átta okkur á því hvað skilyrðin fela í sér. Í fréttum hefur til að mynda komið fram að áætlanirnar sem Glitnir hefur gert til að uppfylla skilyrðin felast í því að selja hann í hendur erlendum aðilum. Allar þessar spurningar þarf auðvitað að rekja á borði hv. efnahags- og viðskiptanefndar þannig að við þingmenn og auðvitað almenningur í landinu fáum sem gleggsta heildarmynd.

Þá liggur líka fyrir annað sem mér finnst mikilvægt að við ræðum, nákvæmlega hvernig framlagið verður nýtt. Framlagið sem um ræðir er jákvætt svo fremi að það skili sér á þann hátt sem hér hefur verið boðað. Ég er sammála þeirri nálgun að það þarf auðvitað að nýta í að lækka skuldir ríkisins og tryggja þannig stöðugleika í landinu. Það hlýtur að vera markmiðið, ekki að skattlagningin og þar af leiðandi framlagið sé byggt á þeirri forsendu að það sé til að tryggja stöðugleika í landinu en ekki til þess beinlínis að innheimta fjármuni. Það er mikilvægt að þessum spurningum verði líka svarað í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Við höfum heyrt sjónarmið hæstv. ráðherra í þessum efnum og ég er sammála þeim í heildina tekið.

Ég vil að lokum segja að framhaldið skiptir svo öllu máli fyrir Ísland. Gangi þessi aðgerð vel eftir er gríðarlega mikilvægt hvernig við höldum á efnahagsstjórn okkar í framhaldinu. Hér hefur verið rætt um þjóðhagsleg varúðartæki þannig að við tryggjum styrkari stjórn peningamála og ríkisfjármála. Við höfum rætt um frumvarp um opinber fjármál sem meðal annars á að verða til þess að tryggja hér styrkari stjórn ríkisfjármála o.s.frv. Við skulum líka átta okkur á því, af því að hæstv. ráðherra er í salnum, að líka hafa verið boðaðar auknar skattalækkanir. Hæstv. forsætisráðherra tiltók það sérstaklega í sinni ræðu að þær mættu þó ekki verða til þess að raska stöðugleikanum, en skattalækkanir á uppbyggingartímum gætu vissulega orðið til þess að auka hér þenslu. Við höfum dæmin um það, fyrir utan þá reynslu sem fengist hefur af þeirri hagfræðikenningu að lækkun skatta skili sér í heildarhagnaði fyrir samfélagið allt.

Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra sem boðaði skattalækkanir fyrir nokkrum dögum, sagði að það væru næstu skref í stjórn efnahagsmála á Íslandi, að kynna sér nýja rannsókn frá Cambridge-háskóla sem hefur einmitt rýnt hvernig stjórnarstefna nýfrjálshyggjunnar og Margrétar Thatcher hefur birst á Bretlandseyjum. Þar liggur fyrir ansi ítarleg rannsókn um þessi mál og niðurstaða hennar er mjög merkileg. Hún er sú sem við vissum, að sú stefna að lækka skatta, að skattkerfið sé flatt út þannig að fólk borgi ekki í hlutfalli við tekjur og að skattleggja ekki fjármagn heldur með sama hætti og tekjur hefur skilað sér í auknum ójöfnuði. Þetta hef ég talið mig vita og ekki þurft miklar rannsóknir til. Hins vegar eru ekki allir sammála um þetta sem rannsóknin sýnir okkur. Hún sýnir okkur líka að atvinnuleysi hafi aukist mjög á þessum tíma. Þeir postular sem predikuðu þessa hagfræði sögðu það hins vegar nauðsynlegan fylgifisk þess að halda ákveðnum stöðugleika og tryggja vöxt í samfélaginu. Það sem rannsóknin sýnir, og það eru stóru tíðindin í hagfræðiheiminum núna, er að stefna Thatcher, nýfrjálshyggjan, dró líka úr hagvexti. Hún dró úr vexti, hafði beinlínis hamlandi áhrif á vöxt. Ef hæstv. ráðherra er áhugamaður um að við getum núna farið að vaxa, sem ég vona að sjálfsögðu að við gerum með sjálfbærum hætti, held ég að hann ætti að velta þessari rannsókn fyrir sér þegar við ræðum skattstefnuna til framtíðar því að ef við viljum tryggja í senn stöðugleika og sjálfbæran vöxt sem og að allir fái notið góðs af þeim vexti, ekki bara sumir, tel ég að við þurfum virkilega að endurskoða þá skattstefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur boðað. Það er til hagsbóta fyrir alla.

Þetta tengist ekki beinlínis þessum málum hér, en mér fannst samt mikilvægt að koma þessu á framfæri því að hér er einn áfangi. Við lýsum ánægju með þær tillögur sem liggja fyrir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, en við teljum líka mjög mikilvægt að menn hafi einhverja framtíðarsýn um það hvernig eigi að halda áfram til að tryggja betri lífskjör í þessu landi fyrir alla. Til þess erum við hér.