144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni ummæli hæstv. fjármálaráðherra um að nýta svigrúm sem gæfist innan fjárlaga vegna lægri vaxtagjalda til skattalækkana þegar líður á kjörtímabilið. Mér þóttu þetta óvarleg ummæli hjá hæstv. fjármálaráðherra og úr takti við framgöngu hans í þessu máli sem hefur einkennst af varkárni. Er hv. þingmaður sammála mér um að ummæli af þessu tagi frá hæstv. fjármálaráðherra séu þensluhvetjandi í sjálfu sér vegna þess að þau ýti undir væntingar? Mér finnst þetta ekki góð væntingastjórnun og sérstaklega finnst mér þetta ganga þvert á það sem Seðlabankinn er að gera þessa dagana, sem er að reyna að draga úr því sem við getum kallað möguleika á ofhitnun í hagkerfinu. Hvað hefur hv. þingmaður að segja mér um þetta, er hún sammála mér?

Í annan stað er það auðvitað svo, eins og hv. þingmaður drap á ská á, að hér hefur verið söguskýringarglíma. Hún hefur stafað af því að einn stjórnmálaflokkur, Framsóknarflokkurinn, hefur gert sér far um að teikna upp þrjá aðra stjórnmálaflokka sem sérstaka erindreka kröfuhafa og að þeir hafi þar með unnið gegn þjóðarhag. Af því tilefni verð ég að rifja það upp að það kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins að áður en hinn frægi og merkilegi fundur í Hörpu var haldinn var búið að skrifa undir rammasamninga eða erindi þar sem bókstaflega lá fyrir að slitabúin féllust á stöðugleikaskilyrðin. Við höfum heyrt hæstv. fjármálaráðherra lýsa mjög nákvæmlega og af ærleika hvernig það er gert. Hv. þingmaður kallar það samtöl. Mætti ekki, eins og núna liggur fyrir, álykta sem svo að samningar hafi verið í gangi? Mætti kannski álykta (Forseti hringir.) þá líka að fundurinn í Hörpu, a.m.k. eins og hann var lagður af hæstv. forsætisráðherra, hafi verið svolítið sjónarspil?