144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom lítillega inn í það í minni ræðu og ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að yfir stendur ákveðið túlkunarstríð. Það hefur verið þægileg staða fyrir marga að geta teiknað þetta upp í einhvers konar þjóðernisbaráttu þar sem sumir eiga að hafa staðið með þjóðinni og aðrir í liði með einhverjum óskilgreindum erlendum kröfuhöfum eða hrægömmum. Mig minnir raunar að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi gert þá athugasemd að það orð væri skyndilega horfið úr orðabók Framsóknarflokksins. Ég hef reynt að fylgjast vel með orðræðu hv. þingmanna flokksins síðan og það er ekki fjarri því að það sé rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það sé búið að tippexa yfir þetta orð í orðabókinni.

Vissulega er það rétt og ég tel að það hafi komið algjörlega skýrt fram að hér voru samtöl. Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að ræða hvort þetta hafi verið samningaviðræður, samtöl eða annað. Staðreyndir málsins liggja algjörlega fyrir. Fulltrúar stjórnvalda áttu samtöl við fulltrúa kröfuhafa. Þeir hlustuðu eftir sjónarmiðum kröfuhafa. Stöðugleikaskilyrðin voru mótuð í framhaldi af því. Svo geta menn neitað því að þetta hafi verið beinar viðræður og sagt að þetta hafi bara verið samtöl. Við getum dregið upp margar orðabækur til að deila dálítið um það. Ég held að það sé svo sem þarflaust. Aðalmálið er að ég er ekki ósammála þeirri aðferðafræði að hafa átt þessi samtöl og að setja síðan upp þennan skatt, eins og ég segi, við endann á göngunum til þess að sjálfsögðu að setja fólk í þá stöðu að annaðhvort er samið eða skatturinn greiddur. Mér finnst þetta bara eðlileg aðferðafræði, svo ég segi það hér, herra forseti.

Ég kem kannski betur að ummælum hæstv. ráðherra í mínu síðara andsvari en í raun tel ég að þau komi ekki mjög á óvart úr (Forseti hringir.) ranni hæstv. fjármálaráðherra.