144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór hér nokkuð yfir það með hvaða hætti þau frumvörp sem hér eru til umræðu gætu haft áhrif á bættan hag ríkissjóðs og hvernig ætti að spila úr meðferð þeirra skattgreiðslna sem geta verið undir, nú eða stöðugleikaframlags. Ég held að í grunninn sé ekki mikill ágreiningur um það. Hins vegar virðist sitt sýnast hverjum um það hversu líklegt er að staðið verði við það sem á að lögfesta hér. Menn kvarta undan því að nefndir séu möguleikar á skattalækkunum í framtíðinni, sem er nokkuð merkilegt vegna þess að skattalækkanir eru ekkert annað en það að létta byrðum af heimilunum í landinu. Það er ótrúlegt hversu margir virðast seigir í baráttu sinni gegn slíkri stefnu. Það er alveg ótrúlegt. Að létta sköttum af fólki er að gera fólki betur kleift að ná endum saman, það er nú bara svo einfalt. Leyfa fólki að halda hærra hlutfalli af sjálfsaflafé sínu, er það glæpur?

Menn ganga svo langt að vitna í Margréti Thatcher og það fer alltaf hrollur um vinstri menn þegar hana ber á góma. Það er bara gaman að því, (ÖS: Það er ekki rétt.) það er konan sem (Gripið fram í.) fékk umboð til að stýra Bretlandi í á annan áratug sem forsætisráðherra og var í sérstöku dálæti hjá þeim forsætisráðherra sem nú stýrir Bretlandi og hefur aldrei farið leynt með það og fékk einmitt umboð frá kjósendum fyrir skemmstu til að halda áfram á þeirri braut sem hún markaði strax á áttunda áratugunum. (ÖS: Ég var nú hrifinn af henni.)

Skattar og þær skattbreytingar sem við höfum talað fyrir eru ekki flatir skattar þar sem allir greiða sama hlutfall af launum sínum til ríkisins. Það er rangt. Það er mistúlkun á skattstefnu Sjálfstæðisflokksins. Ef við værum með þá stefnu værum við hér að mæla fyrir einu skattþrepi og engum persónuafslætti. Við erum ekki að mæla fyrir því. Við styðjum persónuafsláttinn og staðreyndin er að jafnvel með þeim skattbreytingum sem við erum núna síðast að boða og þeim sem við viljum gera í framtíðinni verður skattbyrðin breytileg. Hún verður minnst á þá sem lægstar hafa tekjurnar og hún verður mest á þá sem hæstar hafa tekjurnar.