144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að hæstv. fjármálaráðherra ljúki orðum sínum hér á að viðra það að hann sé ósammála hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um stóraukinn þátt leiguhúsnæðis á húsnæðismarkaði. Það er ekki í fyrsta sinn sem þau eru ósammála um stefnu. En ég vil bara segja að ef hæstv. ráðherra hefur hlustað á mig, ekki bara hér í dag heldur áður, veit hann það að þegar ég ræði vöxt er ég að sjálfsögðu að hugsa um vöxt sem er í einhverju samræmi við aðra þætti. Við hljótum að hafa það í huga að við viljum vöxt en við viljum að hann sé í sátt við umhverfi og samfélag, þ.e. að hann sé ekki eingöngu á efnahagslegum forsendum.

Að sjálfsögðu er vöxtur jákvæður en hann er ekki jákvæður hvernig sem er og hann á ekki að byggjast á hverju sem er. Það skiptir máli hvernig vöxturinn er fenginn fram, en ég heyri að við hæstv. ráðherra þyrftum að hafa talsvert lengri tíma fyrir þessi orðaskipti því að þau snúast um grundvallarmuninn á pólitískri stefnu og hvernig samfélag við viljum byggja. Ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að aukinn jöfnuður (Forseti hringir.) þýðir líka aukna velsæld og aukinn vöxt á sjálfbærum forsendum.