144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[12:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Í 1. gr. frumvarpsins um stöðugleikaskattinn er talað um markmið annars vegar og hins vegar ráðstöfun. Hitt frumvarpið, um nauðasamningana, er til stuðnings þessu frumvarpi. Það kemur skýrt fram í 1. gr. stöðugleikaskattsfrumvarpsins að markmiðið með þessum aðgerðum sé efnahagslegur stöðugleiki og almannahagur. Það er leiðarljósið, það er markmiðið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða tilfinningu hann hafi fyrir orðunum efnahagslegur stöðugleiki. Hugtakið getur verið vítt. Það getur alveg verið efnahagslegur stöðugleiki þó að stakkur landsmanna sé þröngur en stakkur landsmanna getur líka verið víðari. Þá vísa ég til samneyslu, fjárfestinga, einkaneyslu. Það er alveg ljóst að því meira svigrúm sem slitabúin hafa, sér í lagi ef þau fara í nauðasamningana, stöðugleikasvigrúmið sem Seðlabankinn mun síðan skilgreina, þeim mun víðara sem það er fyrir þrotabúin, þeim mun þrengri er kostur landsmanna þegar fram í sækir eða bara strax. Því meira sem er hægt að taka út úr landinu, þeim mun minna verður hægt að nota í samneyslu, fjárfestingar, uppbyggingu atvinnulífsins og einkaneyslu.

Ég vil því spyrja þingmanninn hvort hann sé það vel inni í þessum málum — ég hef verið að spyrja að þessu — að hann geti svarað því hvernig síðara frumvarpið muni hafa áhrif á þetta. Seðlabankinn virðist ætla að taka ákvörðun einhvern tímann. Hvenær? Ég heyrði einhvern tímann í haust að hann ætlaði að taka ákvörðun um hvert þetta svigrúm er þannig að hann gefi slitabúunum vottorð til þess að fara í nauðasamningana. Hvert er það svigrúm og hver er aðkoma þingsins að því? Mér heyrist að þingið eigi ekki að hafa neina aðkomu að því. Ég hef heyrt að það eigi að leggja fram þingsályktunartillögu en síðan hef ég líka heyrt að það eigi ekki að gera og það eigi bara að upplýsa þingið um þetta. Veit þingmaðurinn meira um þetta mál?