144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[12:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst gott hvernig hann kom inn á að við þyrftum að horfa til framtíðar í þessu máli. Ég held að það sé einmitt lykilatriðið. Stóra gatið í planinu hjá ríkisstjórninni tel ég vera að það kemur ekkert svar við spurningunni: og hvað svo? Ef menn ætla að fara að losa hér um fjármagnshöft þá er þessi aðgerð í sjálfu sér ekki afnámsaðgerð heldur eingöngu undirbúningsaðgerð. Menn eru að búa í haginn fyrir að það verði hægt, en menn hljóta að ætla að svara spurningunni um hvernig peningastefnu eigi að reka hér að loknu losunarferli, þ.e. þegar menn er komnir á þann stað að búið verður að afnema höftin að miklu leyti en eingöngu standa eftir þau þjóðhagsvarúðartæki sem menn hafa boðað að verði hér áfram. Höftin verða kannski aldrei alveg afnumin, en samt að svo miklu leyti sem það er hægt. Þá hljóta menn að þurfa að svara þeirri spurningu: Á svo bara að halda áfram með sama planið, þ.e. sömu peningastefnuna? Ætlum við að halda áfram með það kerfi þar sem við erum með; verðtryggða íslenska krónu sem er eingöngu notuð af íslenskum almenningi og heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum, á meðan stóru fyrirtækin og eignafólk geta notað mynt sem er gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum og svo framvegis? Það er stóra gatið í áætluninni, finnst mér. Ég hefði viljað spyrja hv. þingmann hvernig hann sér þetta fyrir sér, vegna þess að það er ekki nóg að segja: Heyrðu, við ætlum að afnema höft. Það þarf að segja: Og hvað tekur þá við? Það vantar hér.